Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, heimsótti í dag, 10. ágúst, skrifstofur Sambands íslenskra sveitarfélaga í Borgartúni. Ráðherra fékk að sjálfsögðu skoðunarferð um húsnæðið, sem nýlega var tekið algerlega í gegn.
Að lokinni skoðunarferð sat ráðherra, ásamt aðstoðarmanni, ráðuneytisstjóra og sérfræðingum ráðuneytisins samráðsfund með formanni, framkvæmdastjóra og sérfræðingum sambandsins. Um var að ræða þriðja samráðsfund þessara aðila á þessu ári og er stefnt að því að næsti fundur verði í byrjun október.
Á fundinum í dag voru tvö málefni til umræðu.
- Rætt var um leiðir til að auka samstarf ríkis og sveitarfélaga í loftslagsmálum og þörf fyrir áframhaldandi vinnu við Verkfærakistu sveitarfélaga í loftslagsmálum. Framundan er m.a. ráðstefna 5. september n.k. sem Veðurstofan skipuleggur í samstarfi við sambandið og fleiri aðila, þar sem rætt verður um aðlögun að loftslagsmálum. Ráðstefnan verður kynnt nánar á næstunni.
- Rætt var um stöðu innleiðingar hringrásarhagkerfis. Fjölmörg verkefni hafa verið í vinnslu, s.s. um Handbók fyrir sveitarfélög um framkvæmd úrgangsstjórnunar og innleiðingu Borgaðu þegar þú hendir fyrirkomulags við sorphirðu. Ljóst er að það er mikil áskorun að innleiða allar breytingar fyrir næstu áramót en fundarmenn voru sammála um mikilvægi góðs samstarfs til að ná árangri í þessu verkefni. Fyrirhugað er málþing um miðjan september um þetta málefni sem verður nánar kynnt síðar.
Í júlí sendi sambandið, í samstarfi við KPMG, út könnun til sveitarfélaga um stöðu innleiðingar hringrásarhagkerfis. Svör hafa þegar borist frá um 20 sveitarfélögum en áminning hefur verið send með ósk um að svör berist fyrir 15. ágúst. Eru sveitarfélög vinsamlega beðin um að svara könnuninni fyrir þann tíma.
Í lok fundar færðu ráðherra og ráðuneytisstjóri Aldísi Hafsteinsdóttur formanni sambandsins þakkir fyrir gott samstarf, en þetta var síðasti samstarfsfundur sem Aldís tekur þátt í þar sem hún mun láta af embætti að loknu landsþingi sambandsins í lok september.