Þann 5. nóvember sl. undirrituðu Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Dagur Eggertsson, borgarstjóri, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, samning um stofnun Jafnlaunastofu sf., sem er sameignarfélag í eigu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.
Tilgangur og hlutverk Jafnlaunastofu sf. er að:
- veita sveitarfélögum stuðning við að uppfylla ákvæði jafnréttislaga um að starfsfólki í sömu eða jafnverðmætum störfum hjá sveitarfélögunum séu greidd jöfn laun m.a. með fræðslu og ráðgjöf á sviði jafnlaunamála,
- styðja stjórnendur sveitarfélaga við að fylgja jafnlaunaákvæðum jafnréttislaga og innleiða og viðhalda jafnlaunavottun,
- hafa umsjón með rekstri verkefnastofu starfsmats í samræmi við jafnlaunamarkmið jafnréttislaga og ákvarðanir faglegar stjórnar starfsmatskerfisins SAMSTARF,
- veita ráðgjöf og stuðning við þróun greiningar- og matstækja sem stuðla að launajafnrétti kynjanna og jaðarsettra hópa á grundvelli aðferðafræði starfsmats,
- byggja upp og miðla þekkingu á sviði jafnlaunamála,
- stuðla að gagnsæi launaákvarðana.
- annar tengdur rekstur í samræmi við ákvörðun stjórnar.
Stefnt er að því að Jafnlaunastofa sf. taki til starfa um næstu áramót.