01. mar. 2018

Samkomulag um útfærslu á launaþróunartryggingu

Aðilar að rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 undirrituðu í hádeginu í dag samkomulag um útfærslu á launaþróunartryggingu fyrir tímabilið 2013-2017, í samræmi við ákvæði rammasamkomulagsins þar um.  

Fyrsti samanburður samkvæmt samkomulaginu fór fram í árslok 2016 og skilaði félagsmönnum aðildarfélaga BSRB, sem starfa hjá ríkinu, 1,3% launaauka og félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ, sem starfa hjá ríkinu, 1,8% launaauka vegna þróunar launakostnaðar frá nóvember 2013 til nóvember 2016.

Á sama tímabili jókst launakostnaður meira vegna starfsmanna sveitarfélaga sem eru  félagsmenn í ASÍ og BSRB en launakostnaður á almennum vinnumarkaði og kom því ekki til launaauka hjá þeim starfsmönnum sveitarfélaga.

Samkomulagið sem undirritað var í dag byggir á þróun launakostnaðar frá nóvember 2013 til nóvember 2017 og er þetta því í annað sinn sem launaþróun er mæld með þessum hætti. Niðurstöður voru eftirfarandi og gilda frá 1. janúar:

  • Launaauki félagsmanna ASÍ sem starfa hjá ríkinu nemur 0,5%
  • Launaauki félagsmanna ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum nemur 1,4%
  • Launaauki félagsmanna BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum nemur 1,4%
  • Ekki kemur til launaauka hjá félagsmönnum BSRB sem starfa hjá ríkinu


Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga mun á næstunni ganga frá samkomulagi við stéttarfélögin varðandi útfærslu launaaukanna.

Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að starfsmönnum hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt launaskrið á almennum vinnumarkaði verði það meira en hjá hinu opinbera. Skal það gert með því að bera árlega saman þróun launakostnaðarvísitölu fjögurra hópa starfsmanna þ.e. félagsmanna ASÍ og BSRB hjá ríki og sveitarfélögum, við þróun á launakostnaðarvísitölu félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði.

Mælist þróun launakostnaðar hjá einhverjum hinna fjögurra hópa opinberra starfsmanna lakari en á almennum vinnumarkaði skulu starfsmenn í þeim hópi fá launaauka til að jafna muninn, en verði þróunin opinberum starfsmönnum í hag skal það jafnað við næstu launaákvörðun.

Þess má svo geta að rammasamkomulagið gildir til ársloka 2018, en  launaþróunartryggingin hefur ekki áhrif á umsamdar hækkanir á samningstímabilinu. Kjarasamningar Sambands íslenskra sveitarfélaga gilda út mars 2019, að kjarasamningi grunnskólakennara og tónlistarskólakennara undanskildum. Kjarasamningur Félags grunnskólakennara er útrunninn og eru kjaraviðræður við félagið hafnar. Þá gildir samningur tónlistarskólakennara  út marsmánuð á þessu ári og eru kjaraviðræður í undirbúningi.

Frá undirrituninni fyrr í dag sem fór fram í húsakynnum BSRB. F.v. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Atli Atlason, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Garðar Hilmarsson, formaður starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.