Samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir árin 2021-2025

Fyrir helgi var skrifað undir samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir árin 2021-2025.

Í samkomulaginu, sem gert er á grundvelli laga um opinber fjármál, er byggt á eftirfarandi spá um afkomu og efnahag sveitarfélaga:

  • Heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga mun versna verulega. Reiknað er með að afkoman verið neikvæð um 1,1% af VLF árið 2020, 1,1% 2021 og 0,8% 2022.
  •  Skuldir A-hluta sveitarfélaga geti farið í 7,0% af landsframleiðslu árið 2020 og 8,3% árið 2022. Samkvæmt undirliggjandi horfum mun þurfa að grípa til afkomubætandi ráðstafana til að skuldir sveitarfélaga haldi ekki áfram að vaxa.
  • Meginmarkmið fjármálaáætlunar er að stöðva hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2025. Þessi markmiðssetning tekur bæði til sveitarfélaga og ríkisins.

Í samkomulaginu eru tilgreind fjöldi verkefna sem gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög vinni saman að á næstu árum. Meðal verkefna er heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, auk endurmats á útgjöldum vegna hjúkrunarþjónustu og annarrar þjónustu við aldraðra. Einnig verður kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk greind og sérstakt mat lagt á kostnaðaráhrif laga- og reglugerðarbreytinga og  stjórnvaldsfyrirmæla. Taka á upp viðræður um hvernig bregðast megi við þessari þróun og hvernig best verði staðið að fjármögnun hennar.

Viljayfirlýsing um fjárhagslega viðspyrnu sveitarfélaga

Í tengslum við samkomulagið var einnig undirrituð yfirlýsing þar sem forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra lýsa yfir vilja sínum til að vinna að því að afla fjárheimilda á Alþingi fyrir ýmsum aðgerðum sem miða að því að veita sveitarfélögum fjárhagslega viðspyrnu og til að vernda lögbundna grunnþjónustu þeirra. Má þar t.d. nefna 670 m.kr. aukaframlag vegna málefna fatlaðs fólks, 720 m.kr. vegna fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga og 500 m.kr. til sveitarfélaga sem standa höllum fæti vegna Covid- 19. Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að ríkisstjórnin muni standa með sveitarfélögunum og fylgjast áfram með þróun í fjármálum þeirra og bregðast við eins og við á hverju sinni til að tryggja að sveitarfélögin geti sinnt þeirri mikilvægu nærþjónustu sem þeim er falið að sinna skv. lögum. Með yfirlýsingunni er fylgiskjal þar sem getið er um ýmis viðbrögð ríkisstjórnar og Alþingis vegna Covid-19 sem talin eru að komi sveitarfélögum til góða.