15. des. 2016

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem haldinn var í byrjun desember 2016, var undirritað samkomulag aðildarsveitarfélaganna um samstarf um næstu skref við undirbúning að innleiðingu svokallaðrar Borgarlínu.

Borgarlína er hryggjastykkið í nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og er nýtt léttlestar- eða hraðvagnakerfi sem flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið. Þannig myndast samgöngu- og þróunarás sem tengir sveitarfélögin.

Stefnt er að því að um mitt ár 2017 liggi fyrir endanlegar tillögur um legu línunnar, og að lokið verði undirbúningi að stofnun sérstaks félags um uppbyggingu innviða sem tengjast línunni.

Þetta er án efa eitt viðamesta samstarfsverkefni sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sameiginlega tekist á við í langan tíma. Með samkomulaginu er þetta verkefni, sem byggir á meginforsendum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins um þéttingu byggðar og breytingu á ferðavenjum, að komast af hugmyndastigi í átt til framkvæmda.

Nálgast má nánari upplýsingar á sérstakri vefsíðu um Borgarlínu.