Samband íslenskra sveitafélaga leggur til að BRSB fari með málið fyrir dómstóla

BRSB hefur farið mikinn í fjölmiðlum og í auglýsingaherferð með ásakanir í garð sveitarfélaganna að þau mismuni starfsfólki sínu á fyrstu þrem mánuðum þessa árs. Jafnframt krefjast þau leiðréttingar á launalið útrunnins kjarasamnings sem þegar er að fullu efndur af hálfu sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur alfarið hafnað fullyrðingum BSRB um að sveitarfélög séu að brjóta jafnréttislög. Sambandið hvetur því forystu BSRB að fara með málið fyrir dóm og óska eftir flýtimeðferð þess.

Ef dómsniðurstaða sýnir fram á brot sveitarfélaga þá verða laun starfsfólks leiðrétt, enda er það stefna sveitarfélaga að fylgja jafnréttislögum í hvívetna.

BRSB hafnaði tilboðum sem hefðu tryggt félagsmönnum launahækkun í janúar 2023

Í kjaraviðræðum ársins 2020 hafnaði forysta BSRB fjórum tilboðum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tryggt hefðu félagsmönnum þeirra launahækkanir frá 1. janúar 2023. Fram að undirskrift kjarasamnings bæjarstarfsmannafélaganna þann 8. mars 2020 reyndi formaður samninganefndar sambandsins að telja formanni samninganefndar BSRB hughvarf. Var henni m.a. bent á (í fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum) að höfnun þeirra á tilboði um sama samning og Starfsgreinasambandið hafði þegar gert yrði til þess að bæjarstarfsmenn innan BSRB yrðu af launahækkunum sem félagsmenn innan Starfsgreinasambandsins myndu fá frá 1. janúar 2023.

Kjarasamningurinn var undirritaður af samninganefndum beggja aðila, samþykktur í atkvæðagreiðslu félagsmanna og af stjórn sambandsins. Sveitarfélögin hafa að fullu efnt þann kjarasamning sem gerður var við bæjarstarfsmannafélögin á árinu 2020.

Kjarasamningur Sambands íslenskra sveitarfélaga við bæjarstarfsmannafélögin var gerður af til þess bærum aðilum sem fara með umboð til kjarasamningagerðar og bera þá ábyrgð sem slíkt umboð felur í sér.

Tilboð um nýja kjarasamning liggur á borðinu

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) hefur lagt fram kjarasamningstilboð sem tryggir félagsmönnum BSRB 8,78% hækkun grunnlauna, frá 1. apríl 2023, sem er hærri hlutfallshækkun launa en forysta BSRB hefur nú þegar samið um við aðra opinbera vinnuveitendur.