Verulegur munur er á minnsta og mesta orkukostnaði heimila eftir landshlutum, óháð því hvort litið er til húshitunar eða raforkunotkunar. Þá virðist raforkunotendum almennt ekki ljóst, að þeim er heimilt að skipta við sölufyrirtæki að eigin vali, að því er kemur fram í samantekt Byggðastofnunar.
Verulegur munur er á minnsta og mesta orkukostnaði heimila eftir landshlutum, óháð því hvort litið er til húshitunar eða raforkunotkunar. Þá virðist raforkunotendum almennt ekki ljóst, að þeim er heimilt að skipta við sölufyrirtæki að eigin vali, að því er kemur fram í samantekt Byggðastofnunar.
Um viðamikla samatekt er að ræða og eru niðurstöður í sumum tilvikum sláandi. Hvað raforkukostnað snertir eru í fjórum neðstu sætum með lægsta verðið Grindavík, Keflavík, Vestmannaeyjar og Akureyri, en raforkuverð var í öllum þessum tilvikum undir kr. 80.000. Orkubú Vestfjarða dreifbýli, OR dreifbýli, OR Rangárveita og RARIK dreifbýli eru svo á hinn bóginn í efstu sætum með um og yfir kr. 110.000 á ársgrundvelli Munur á hæsta og lægasta raforkukostnaði reyndist 56%.
Í samaburði á húshitunarkostnaði breikkar bilið enn frekar, en þar raðast í 10 efstu sæti með hátt í kr. 200.000 Orkubú Vestfjarða dreifbýli, Hólmavík, Bolungarvík, Neskaupstaður, Patreksfjörður, Reyðarfjörður, Vopnafjarðarhreppur, Grundarfjörður, Ísafjörður og RARIK dreifbýli. Í neðstu sætum með um og yfir kr. 50.000 eru Seltjarnarnes og Flúðir og því næst kemur Grindavík með tæplega kr. 85.000.
Munurinn á hæsta og lægsta húshitunarkostnaði á ársgrundvelli er 246%.
Orkustofnun sá um verðútreikninga fyrir Byggðastofnun. Húshitunar- og raforkukostnaður er reiknaður á ársgrundvelli frá árinu 2013 fyrir einbýlishús, sem er 140 m2 að grunnfleti og 350 m3 að rúmmáli og er tekið mið af gjaldskrá 1. september 2017.
Auk þess að leiða í ljós greinilegan mun á milli landshluta, reyndist orkukostnaður í öllum tilvikum meiri í dreifbýli en í þéttbýli. Greint er frekar frá niðurstöðum og verðsamanburði á milli áranna 2015, 2016 og 2017 á vef Byggðastofnunar.
Í bókun sem gerð var á stjórnarfundi Byggðastofnunar um samantektina er m.a. minnt á að jöfnun sé grunnþáttur í byggðastefnu stjórnvalda og að horfa verði til aðgerða sem dregið geti úr þessum mun á milli landshluta.