04. ágú. 2016

Saga lands og þjóðar

  • Halldor_Halldorsson

Á dögunum var þess minnst að 150 ár eru liðin frá því að verslunarstaðurinn á Skutulsfjarðareyri fékk réttindi kaupstaðar. Þess var jafnframt minnst að 20 ár eru liðin frá því að nokkrar byggðir á norðanverðum Vestfjörðum sameinuðust í eitt sveitarfélag, Ísafjarðarbæ. Um var að ræða sex eldri sveitarfélög: Ísafjarðarkaupstað, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Mosvallahrepp og Mýrahrepp. Áður höfðu átt sér stað sameiningar þannig að Ísafjarðarbær er samansettur úr 11 eldri sveitarfélögum. Sameiningin sætti tíðindum á sínum tíma og um hana voru skiptar skoðanir en þetta ákváðu íbúarnir. Reynslan hefur sýnt að hún var tvímælalaust stórt skref í rétta átt. Forsenda þess að hægt var að sameina þessi sveitarfélög var gerð Vestfjarðarganga, sem tekin voru í notkun árið 1996. Þegar horft er um öxl er ljóst að ríkisvaldið hefur ekki staðið nægilega vel að því að halda áfram að skapa sveitarfélaginu og íbúum þess umgjörð við hæfi því enn vantar upp á að grunngerðin verði bætt. Vegir milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða eru t.d. óbreyttir frá því í kringum 1950.

Í samfélagi nútímans vega sumir þættir þyngra en aðrir. Þannig færist örugg tenging við umheiminn ofar á listann með hverju árinu sem líður. Þar er ekki einungis átt við samgöngukerfið sjálft heldur einnig fjarskiptasambandið. Örugg og öflug nettenging allan ársins hring telst orðið til sjálfsagðra lífsþæginda og skiptir sköpum hvað varðar öryggi ekki síður en það að komast ferða sinna á milli staða. Þegar fólk velur sér búsetu nú skipta þessir þættir meira máli en nokkru sinni fyrr.

Sameining sveitarfélaganna sex á Vestfjörðum árið 1996 hefði ekki orðið að veruleika án Vestfjarðaganganna. Á sama hátt hafa samgöngubætur gegnt lykilhlutverki við tilurð fleiri öflugra sveitarfélaga á liðnum árum og nægir að nefna Fjarðabyggð og Fjallabyggð í því sambandi. Enn fleiri sveitarfélög gætu sameinast ef samgöngur þeirra á milli yrðu bættar og gerðar öruggari. Ríkisvaldið þarf að efla mjög þennan þátt í rekstri sínum, bæði hvað varðar samgöngukerfið og uppbyggingu ljósleiðaranets hringinn í kring um landið. Það að jafna aðstöðu landsmanna sem mest hvað þessa þætti varðar er ávísun á aukið jafnvægi í byggð landsins.

Saga Ísafjarðarbæjar er samofin sögu íslensku þjóðarinnar og á margan hátt eins konar spegilmynd hennar. Á Vestfjörðum, líkt og hjá þjóðinni allri, hafa skipst á skin og skúrir; mikil velsældartímabil í atvinnulífinu og alvarlegur samdráttur inn á milli. Nú bendir margt til þess að langvinn niðursveifla á Vestfjörðum sé að baki, rétt eins og í þjóðfélaginu öllu. Nýjar atvinnugreinar ryðja sér til rúms og ný atvinnutækifæri bíða handa við hornið. Um leið og ég óska íbúum Ísafjarðarbæjar, míns gamla heimabæjar, til hamingju með 150 ára afmælið, vona ég að tímabil uppsveiflu og uppbyggingar þar verði langt og farsælt. Sömu ósk á ég þjóðinni allri til handa.

Halldór Halldórsson, formaður