Ríkisvaldið axli ábyrgð

Samninganefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna rammasamnings um  þjónustu hjúkrunarheimila lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar og meirihluta fjárlaganefndar að halda fast við boðaða skerðingu á rekstrargrunni hjúkrunarheimila. 

Samninganefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna rammasamnings um  þjónustu hjúkrunarheimila lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar og meirihluta fjárlaganefndar að halda fast við boðaða skerðingu á rekstrargrunni hjúkrunarheimila. 

Þá lýsir samninganefndin einnig miklum áhyggjum af áhugaleysi ríkisstjórnarinnar í garð hjúkrunarheimila landsins. Staðan sem blasir við þeim er grafalvarleg og gengur þvert á það sem fram kemur í stjórnarsáttmála um  að styrkja skuli rekstrargrunn hjúkrunarheimila.

Verði ekkert að gert, mun enn frekari niðurskurður  á framlögum til hjúkrunarheimila leiða til  skerðingar á  þjónustu við íbúa þeirra. 

Samninganefndin hefur farið þess á leit við Sjúkratryggingar Íslands, SÍ, að tilgreint verði hvaða þjónustuþætti ríkið sé reiðubúið að fella niður eða draga úr, svo að bregðast megi við þeirri rýrnun sem orðið hefur í fjármögnun hjúkrunarheimila á samningstímanum. 

Þar sem um opinbera þjónustu er að ræða, ber ríkinu að ákvarða þjónustustig þeirrar heilbrigðisþjónustu sem ríkissjóður greiðir fyrir. Að sama skapi, beri ríkinu að taka ákvörðun um úr hvaða þjónustuþáttum skuli dregið, nú þegar fjárframlög eru skorin niður. Ríkisvaldið geti ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð að ákveða hvaða þætti í opinberri þjónustu skuli skerða.

Í yfirlýsingu sem samninganefndin sendi frá sér í gær, segir enn fremur að hún hafi ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við að ríkið skuli ekki hafa kostnaðargreint þær kröfur sem það gerir til þeirrar heilbrigðisþjónustu sem það vill kaupa. Benda má í þessu sambandi á, að sambærileg gagnrýni hefur komið fram hjá Ríkisendurskoðun (Sjúkratryggingar Íslands sem kaupandi heilbrigðisþjónustu, 2018):

Samkvæmt þessu hafa þær breytingar sem lög um sjúkratryggingar áttu að kynna til sögunnar aldrei náð fram að ganga. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki orðið sú stofnun sem tryggt getur markvissa samninga ríkisins um kaup á heilbrigðisþjónustu. Í því sambandi telur Ríkisendurskoðun brýnast að samningarnir fari fram á grundvelli skýrrar heildarstefnu um heilbrigðisþjónustu og ítarlegra þarfa- og kostnaðargreiningar. Tryggja verður bæði gæði þjónustunnar og jafnt aðgengi sjúkratryggðra að henni og sjá til þess að þeir séu þjóðhagslega hagkvæmir.

Umræddur rammasamningur hjúkrunarheimila rennur út þann 31. desember nk.  Ljóst er að hann verður ekki framlengdur nema fyrir liggi hvaða þjónustuþætti eigi að skerða, svo að bregðast megi við umræddri rýrnun í fjármögnun á rekstri heimilanna. Gangi það eftir, verða um 45 hjúkrunar- og dvalarheimili samningslaus við ríkið um þjónustu sína, nú um áramótin.

Samninganefnd SFV og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur  óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða þá  alvarlegu stöðu sem upp er komin. 
 

 
Tengt efni frá Ríkisendurskoðun: