Ríkið græðir á innheimtu fyrir sveitarfélögin

Sambandið hefur veitt umsögn um drög að frumvarpi til laga um innheimtu skatta og gjalda. Sambandið tekur undir að sett verði heildarlög um innheimtu skatta og gjalda, í stað þess að styðjast við reglur sem eru á víð og dreif í lögum.

Sambandið hefur veitt umsögn um drög að frumvarpi til laga um innheimtu skatta og gjalda. Sambandið tekur undir að sett verði heildarlög um innheimtu skatta og gjalda, í stað þess að styðjast við reglur sem eru á víð og dreif í lögum. Í umsögn sambandsins er hins vegar einkum kallað eftir endurskoðun á þóknun sem sveitarfélög greiða Fjársýslunni fyrir að annast innheimtu útsvars f.h. sveitarfélaga. Í umsögninni er vísað til ábendinga sambandsins við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019, þar sem þetta málefni var til umfjöllunar:

„Samkvæmt markmiðssetningu fyrir málaflokkinn „skatta og innheimtu“ í fjármálaáætlun var innheimtukostnaður ríkissjóðs 550 m.kr. árið 2017 og er stefnt að því að hann lækki um 10% á næstu fimm árum. Í umsögn sambandsins um fjármálaáætlunina var gerð krafa um að innheimtuþóknun ríkisins vegna staðgreiðslu útsvars lækki með sama hætti en engin viðbrögð hafa borist við þeirri kröfu. Samkvæmt 32. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 skulu sveitarfélögin greiða ríkissjóði 0,5% af innheimtu útsvari í staðgreiðslu. Þegar þessi lög tóku gildi var útsvarsálagning að meðaltali 6,7%. Við það álagningarhlutfall hefðu sveitarfélögin greitt ríkinu 495 m.kr. en við gildandi álagningarhlutfall losar greiðslan milljarð á þessu ári. Njóta sveitarfélögin þannig í engu þess almenna hagræðis sem náðst hefur í skattheimtu á undanförnum árum, s.s. með rafrænum skattskilum.

Í samkomulagi sem gert var milli sambandsins og fjármálaráðuneytisins á árinu 1990 segir að ríkissjóður tryggi sveitarfélögunum 100% innheimtu á útsvari í staðgreiðslu. En á móti fái ríkissjóður í sinn hlut dráttarvexti og álag sem innheimst hefur. Nauðsynlegt er að farið verði gaumgæfilega yfir þann kostnað sem ríkið kann að hafa af þessu og þær tekjur sem koma á móti og telur sambandið eðlilegt að fjárlaganefnd kalli eftir þeim upplýsingum.“

Í umsögn um frumvarp til laga um innheimtu skatta og gjalda áréttar sambandið framangreind sjónarmið og telur með öllu óeðlilegt að samþykkt verði heildarlög um innheimtu opinberra skatta og gjalda fyrr en löggjafinn hefur lagt mat á sjónarmið ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar um hver sé sanngjörn innheimtuþóknun ríkisins fyrir þá þjónustu sem veitt er sveitarfélögum.

Í umsögninni er að auki kallað eftir auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga um að bæta skattskil og samhæfa bótakerfi hins opinbera. Einnig er fjallað um nauðsyn þess að sveitarfélögin hafi greiðan aðgang að álagningarskrá til að geta fylgst með útsvarsinnheimtu og gert áætlanir um skatttekjur og kallað eftir bættu verklagi varðandi áætlun útsvars á einstaklinga sem ekki skila skattframtali.

Þess má vænta að endanlegt frumvarp verði lagt fram á haustþingi og að þá gefist sveitarfélögum tækifæri til að koma að frekari sjónarmiðum.