Reykjavíkurborg hefur verið valin sem þátttakandi í Evrópusamstarfi um hundrað kolefnishlutlausar og snjallar borgir.
Alls sóttu 377 borgir um að verða hluti af leiðangrinum en teymi sérfræðinga hefur nú valið Reykjavík til þátttöku.
Megin hlutverk borga í leiðangrinum byggir á verkefnum í þágu kolefnishlutleysis í orkumálum, samgöngumálum, byggingum, iðnaði og jafnvel matvælaframleiðslu. Þannig er lagt upp með að loftslagsborgasamningar verðir gerðir (Climate City Contract) sem aðlagaðir verði að viðkomandi borg og samstarfsaðilum í öllum geirum samfélagsins. Hér er því um langtímaverkefni að ræða.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þetta vera mikið fagnaðarefni og alþjóðlega viðurkenningu á loftlagsáætlun Reykjavíkurborgar og viðurkenningu fyrir þau verkefni sem tengjast loftslagsmálum í borginni. „Það voru næstum 400 borgir sem sóttust eftir því að taka þátt í þessu verkefni en aðeins 100 urðu fyrir valinu. Reykjavík hefur sýnt það á undanförnum árum með fjölmörgum verkefnum, allt frá hjólastígagerð, örflæðislausnum, þéttingu byggðar, meðhöndlun úrgangs og að kolefnisföngunarverkefnum eins og Carbfix að við erum ekki bara ákveðinn í að taka þátt í lausnum á loftslagsvandanum, heldur ætlum við að vera í forystu. Þessi útnefning staðfestir það og við erum gríðarlega stolt af þessu.“
Leiðangurinn hvílir á grunni Græna sáttmála Evrópusambandsins (European Green Deal) sem miðar að því að ná kolefnishlutleysi í Evrópu fyrir árið 2050. Í uppleggi að leiðangrinum, „Horizon Europe Mission, Climate Neutral and Smart Cities 2030 – by and for the Citizens“, er rík áhersla lögð á lýðræðislegt samráð og nýjar aðferðir í að stýra verkefnum innan borga og flýta vegferðinni í átt að kolefnishlutleysi.
Megin hindrunin í vegi þeirra breytinga sem þurfa að verða til að mæta loftslagsvá er ekki skortur á tæknilausnum, heldur getan til að hrinda þeim í framkvæmd. Mælt er með því að borgir brjótist út úr lóðréttu skipulagi líkt og Reykjavíkurborg gerði við mótun Græna plansins.
Í Horizon Europe er miðað við að kerfisbreyting verði gerð til að fjárfesta í aðgerðum gegn loftslagsvánni sem myndi byggja á þremur meginreglum:
- Heildstæðri nálgun til að ýta undir nýsköpun og innleiðingu.
- Ítarlegu virku samráði sem yrði byggt inn í skipulag.
- Þéttu samstarfi milli ólíkra hagaðila.
Þetta kallar á nýsköpun í stjórnsýslu og enn frekara samstarf borgarinnar við einkageirann, háskólasamfélagið og frjáls félagasamtök.