Rétt meðhöndlun úrgangs samkvæmt viðbragðsáætlun almannavarna vegna COVID-19

Eitt af mörgum mikilvægum atriðum sem huga þarf að vegna farsótta er að gæta varúðar við umgengni um sorpílát og farga úrgangi á réttan hátt.

Eitt af mörgum mikilvægum atriðum sem huga þarf að vegna farsótta er að gæta varúðar við umgengni um sorpílát og farga úrgangi á réttan hátt. Til er viðbragðsáætlun sem Umhverfisstofnun hefur gefið út um þessi mál, sem er aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Viðbragðsáætlun var síðast uppfærð 23. mars 2020, og vísar hlekkurinn í þá áætlun.

Ljóst er að við núverandi aðstæður er mikilvægt að sveitarfélögin upplýsi íbúa um mikilvægi réttrar úrgangsmeðhöndlunar, til að draga úr smithættu. En hvaða leiðbeiningum ættu sveitarfélög að beina til sinna íbúa um rétta úrgangsmeðhöndlun á neyðarstigi?

Frá Umhverfisstofnun höfum við fengið þau svör að þar sem söfnun og meðhöndlun sorps getur verið misjöfn eftir sveitarfélögum sé skynsamlegast að vísa á leiðbeiningar sem þau sveitarfélög og fyrirtæki sem annast sorphirðu f.h. sveitarfélaga gefa út. Hér má nefna nokkur dæmi, en líkur eru á að eftirfarandi leiðbeiningar verði uppfærðar í ljósi endurskoðaðrar viðbragðsáætlunar:

Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hefur aukið sóttvarnir til verndar starfsmönnum sínum sem vinna við sorphirðu. Til að koma í veg fyrir smit starfsmanna vill Reykjavíkurborg koma eftirfarandi tilmælum til íbúa. Mikilvægt er að fara eftir tilmælunum til að varna því að sorphirða í borginni raskist.

  • Blandaður úrgangur þarf að vera í lokuðum pokum (gráa tunnan).
  • Ekki má yfirfylla tunnur, þær þurfa að vera lokaðar svo starfsmenn komist ekki í snertingu við úrgang við losun eða hann falli úr ílátum.
  • Á þeim heimilum þar sem smit hefur komið upp þarf að huga sérstaklega að mögulegum smitleiðum. Nota þarf heila poka og hnýta vel fyrir þá. Huga þarf að því að smit berist ekki utan á pokum. Snýtubréf eiga heima í lokuðum pokum með blönduðu heimilissorpi en ekki með pappírsúrgangi. Latexhanskar og eins eldhúsbréf sem hafa verið notuð við þrif eða sótthreinsun skal sömuleiðis setja með blönduðum úrgangi.
  • Mikilvægt er að flokka vel og nýta plássið í tunnum heima. Gott er að brjóta saman fernur, pizzakassa og slíkt til að minnka umfang.
  • Í fjölbýli með sorprennum þarf að skipta reglulega um tunnur undir þeim svo rennurnar stíflist ekki. Þeir sem sjá um sorpgeymslur ættu að huga vel að hreinlæti og þvo sér og/eða spritta eftir á. Einnig er gott að nota einnota hanska og henda þeim í blandaðan úrgang að verki loknu.
  • Íbúar þurfa sjálfir að fara með umfram úrgang sem ekki kemst í tunnur á endurvinnslustöðvar Sorpu.
  • Umframsorp sem sett hefur verið við hlið tunni verður ekki hægt að taka vegna sóttvarna.
  • Engin breyting er á flokkun í Reykjavík, nema að efni sem er hugsanlega sóttmengað verður að setja í gráa tunnu. Flokkun er mikilvæg svo úrgangur rúmist í ílátum.
  • Óheimilt er að setja snýtubréf og eldhúsbréf í lífrænan úrgang (Kjalarnes)

Kópavogsbær

Íslenska gámafélagið sem sér um hirða sorp frá heimilum í Kópavogi vill koma fram eftirfarandi tilmælum á framfæri vegna Covid-19 faraldursins.

  • Almennt sorp þarf að vera í vel lokuðum pokum og ekki má yfirfylla tunnur
  • Frá heimilum þar sem smitaður einstaklingur dvelur þarf sérstaklega að gæta þess að allt sorp sé í vel lokuðu pokum. Hááhættu sorp svo sem snýtibréf skulu vera í vel lokuðum, órifnum og þéttum pokum og fara í Gráu tunnuna fyrir almennt sorp
  • Umfram sorpi sem ekki kemst í tunnur, þurfa íbúar að skila á endurvinnslustöðvar
  • Flokkun á endurvinnsluhráefni helst óbreytt enn sem komið er.

Íbúar í Kópavogi eru vinsamlegast beðnir um að virða þessi tilmæli til að koma í veg fyrir að sorphirðustarfsfólk smitist síður og til að draga úr líkum á að sorphirða í bæjarfélaginu raskist sökum faraldursins.

Hveragerðisbær

Gott væri að heimili og sumarbústaðir sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID 19 veirunnar, gangi vandlega frá öllu sorpi og úrgangi til þess að hindra frekari smit.

Allur úrgangur sem berst frá þessum heimilum ætti að flokkast sem almennt sorp, ekki að meðhöndlast né flokkast sem endurvinnsluefni. Þetta er gert af heilsufarsástæðum því sorpið getur mögulega verið sóttmengað. Endurvinnsluefni (pappír, plast, málmar) er meðhöndlað af starfsmönnum okkar þjónustuaðila eftir að það er sótt, og því viljum við forðast möguleg smit og gæta fyllstu varúðarráðstafana.

Því biðlum við til allra þeirra sem eru í sóttkví eða einangrun að setja allt endurvinnsluefni beint í tunnur fyrir óflokkað sorp. Gerum allt til þess að hefta útbreiðslu veirunnar.

Öll heimili í sóttkví eða einangrun athugið: Allur úrgangur í óflokkað sorp.

Nánari upplýsingar veita Eygerður Margrétardóttir sérfræðingur í úrgangsmálum og Guðjón Bragason sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs. Einnig bendir sambandið á Steinunni Karlsdóttur og SigríðiMagnúsdóttur hjá Umhverfisstofnun.