Heilbrigðisráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sem gildi tekur næstkomandi þriðudag 3. nóvember.
Mikið og gott samráð hefur verið um gerð reglugerðarinnar með öllum hagsmunaaðilum um framkvæmd skólastarfs undir forystu menntamálaráðherra.
Ábyrgð á framkvæmd og útfærslu reglugerðarinnar er hjá hverju sveitarfélagi. Sambandið hvetur sveitarstjórnir, fræðsluyfirvöld, skólastjórnendur og kennara til þess að vinna þétt og vel saman að útfærslu skólastarfsins. Öll miðar sú vinna að því marki að unnt verði að halda úti skipulögðu skólastarfi og viðhalda daglegu lífi leik- og grunnskólabarna með sem minnstu raski á þessum óvenjulegu tímum. Hægt verður að senda inn fyrirspurnir er varða framkvæmd skólastarfs á netfangið skolastarf@samband.is. Allt kapp verður lagt á það að fá þeim svarað fljótt og örugglega með liðsinni sóttvarnaryfirvalda, menntamálaráðuneytis, fræðsluyfirvalda í sveitarfélögum eða Kennarasambandsins allt eftir eðli fyrirspurnar.