Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

Í samráðsgátt eru nú til umsagnar drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu.

Reglugerðin á sér stoð í 11. gr. laga um landgræðslu nr. 155/2018 þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli setja reglugerð með það að markmiði að tryggja sjálfbæra landnýtingu með leiðbeiningum og viðmiðum þar að lútandi sem taki mið af ástandi lands, m.a. varðandi beit búfjár, umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju.

Eins og fram kemur í umsögn sambandsins leggst það alfarið gegn því að reglugerðardrögin verði samþykkt í óbreyttri mynd. Að mati sambandsins skorti verulega á samráð við gerð reglugerðardraganna, nauðsynleg grunngögn skortir og miklar áhyggjur eru af því að reglurnar séu of strangar miðað við það markmið sem að er stefnt. Þá hefur mat á fjárhagslegum áhrifum ekki farið fram né heldur mat á áhrifum á byggð í landinu og nýtingu eignarlands.

Fjölmargar neikvæðar umsagnir frá bæði sveitarfélögum og fjallskilanefndum bera og með sér að reglugerðin sé á engan hátt tilbúin til útgáfu.

Sambandið er að sjálfsögðu fylgjandi landvernd og sjálfbærri nýtingu lands en gerir skýra kröfu um að fram fari alvöru samráð við sveitarfélögin um málið og áhrif af reglusetningunni, bæði fjárhagsleg og m.t.t. byggðafestu, verði metin.