Gera má ráð fyrir að 2,2% grunnskólanema, eða um eitt þúsund börn, glími við skólaforðun hér á landi sem rekja má til kvíða, þunglyndis eða erfiðra aðstæðna heima fyrir. Þá telja ríflega 74% skólastjóra að foreldrar og forsjáraðilar hafi of rúmar heimildir til að heimila eigin börnum fjarvist frá skóla og er mikill meirihluti þeirra hlynntur því að opinbert viðmið verði tekið upp, s.s. um hámarksfjölda daga vegna slíkra leyfisveitinga.
Gera má ráð fyrir að 2,2% grunnskólanema, eða um eitt þúsund börn, glími við skólaforðun hér á landi sem rekja má til kvíða, þunglyndis eða erfiðra aðstæðna heima fyrir. Þá telja ríflega 74% skólastjóra að foreldrar og forsjáraðilar hafi of rúmar heimildir til að heimila eigin börnum fjarvist frá skóla og er mikill meirihluti þeirra hlynntur því að opinbert viðmið verði tekið upp, s.s. um hámarksfjölda daga vegna slíkra leyfisveitinga.
Þessar sláandi niðurstöður eru úr nýrri könnun sem velferðarvaktin hefur látið gera á meðal skólastjóra í öllum grunnskólum landsins. Könnunin beinist að áhrifum annars vegar leyfisveitinga og hins vegar skólaforðunar á almenna skólasókn hjá nemendum. Skólaforðun á við um börn sem forðast að sækja skóla vegna tilfinningalegra erfiðleika.
Með hliðsjón af helstu niðurstöðum leggur velferðarvaktin til að tekin verði upp opinber viðmið um skólasókn á Íslandi og/eða heimildir skólastjórnenda auknar til að hafna leyfisóskum vegna nemenda. Samhliða því verði stuðlað markvisst að almennri viðhorfsbreytingu á meðal foreldra/forsjáraðila gagnvart leyfisveitingum frá skólasókn.
Einnig leggur velferðarvaktin til að leitast verði með öllum ráðum við, að fyrirbyggja skólaforðun með virkum stuðningsúrræðum við þau börn sem við hana glíma og að tekin verði upp samræmd fjarvistaskráning um allt land svo fylgjast megi meðumfangi vandans hverju sinni.
Þá leggur velferðarvaktin til að Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra setji af stað formlegan starfshóp sem fjalli um ofangreindar tillögur. Starfshópurinn verði í góðu samstarfi við m.a. Umboðsmann barna, Skólastjórafélag Íslands, Kennarasamband Íslands, heilsugæsluna, Embætti landlæknis, Barnaverndarstofu og frjáls félagasamtök sem koma að málefnum barna og skólanna s.s. Heimili og skóli, Barnaheill, UNICEF og fleiri.
Þess má svo geta að sambandið undirbýr nú málþing um skólasókn, skólaleyfi og skólaforðun þann 20. maí nk. Fer málþingið fram fyrir hádegi í Háteigi, Grand hóteli Reykjavík og verður þar gerð nánari grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar og möguleikum til þess að bregðast við þeim af hálfu skólayfirvalda, barnaverndar og foreldra/forsjáraðila með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.
Mæla má með því að áhugafólk um líðan grunnskólanemenda kynni sér þessa áhugaverðu könnun velferðarvaktarinnar á skólasókn, skólaleyfi og skólaforðun. Niðurstöður eru ekki greinanlegar niður á einstaka skóla, en staðsetning skóla er greind ef svarendur voru 4 eða fleiri. Athygli vekur að hlutfall þeirra sem svöruðu könnuninni er 78,5% sem telst allhátt á mælikvarða viðhorfskannana sem þessara.