Rammi um þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks

Á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldin kynningafundur, þann 25. ágúst sl., til að kynna ramma að þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks.

Markmið samningsins er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur. Með samræmdu móttökukerfi flóttafólks er stefnt að því markmiði að tryggja flóttafólki nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, vegna menntunar eða á öðrum sviðum. ​Fleiri en eitt sveitarfélag geta unnið saman að gerð þjónustusamnings.

Flóttafólk, líkt og aðrir íbúar sveitarfélaga, eiga rétt á allri grunnþjónustu sveitarfélaga. Markmið þjónustusamningsins er að standa undir þeirri viðbótarþjónustu sem starfsfólk félagsþjónustu veitir  vegna flóttafólks. Sveitarfélög eiga einnig rétt á endurgreiðslu á útlögðum kostnaði samkvæmt 15. gr. félagsþjónustulaga.

Með þjónustusamningnum fylgir ítarleg kröfulýsing þar sem farið er yfir ábyrgð sveitarfélaga er taka þátt í verkefninu um samræmda móttöku flóttafólks. Einnig fylgir með ítarlegt kostnaðarlíkan þar sem áætlaður er tímafjöldi í umrædda þjónustu. Ráðuneytið hefur einnig útbúið mjög gott uppgjörs og yfirlitsblað. Það skjal nýtist sveitarfélögum til að reikna út það fjármagn sem ætla má að sveitarfélagið fái greitt eftir því hversu mörgu flóttafólki það tekur á móti ásamt því að áætla stöðugildi er þarf til að veita umrædda þjónustu. Þó þarf ávallt að hafa í huga að greiðslur munu taka breytingum eftir því hvernig hópurinn er þiggur þjónustu er samsettur, t.d. eftir fjölda einstaklinga, hjóna og barna.

Sambandið hvetur áhugasöm sveitarfélög til að kynna sér þessi skjöl vel. Sveitarfélög geta síðan haft samband við Ástu Margréti Sigurðardóttur (asta.sigurdardottir@frn.is) en hún er tengiliður verkefnisins hjá ráðuneytinu.

Hér má finna ramma að þjónustusamningi, fylgiskjöl hans ásamt upptöku frá kynningafundinum.

Glærur frá kynningafundi

Upptaka frá kynningafundi