Rammasamningur við AwareGo

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert rammasamning við AwareGo um sérkjör á öryggisvitundarfræðslu til sveitarfélaga. Gildir samningurinn fyrir öll sveitarfélög að Reykjavíkurborg undanskilinni, sem hefur þegar samið við fyrirtækið.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert rammasamning við AwareGo, þekkingarfyrirtæki í öryggisvitundarfræðslu, um sérkjör fyrir sveitarfélög á fræðsluefni fyrir starfsfólk. 

Öryggisvitund er mikilvægur liður í upplýsingaöryggi og tengist nýju persónuverndarlöggjöfinni sem er væntanleg síðar á þessu ári.

Awarego sérhæfir sig í gerð stuttra fræðslumyndabanda í auglýsingastíl og veitir rammasamningurinn aðgang að þeim 24 fræðslumyndböndum, sem fyrirtækið hefur þegar framleitt.

Einnig fylgir með í kaupunum hugbúnaður, sem unnið er nú að og auðvelda mun dreifingu myndbanda til starfsfólks. Þá er stefnt að útgáfu 24 myndbanda til viðbótar á samningstímanum.

Þau sveitarfélög sem vilja nýta sér samninginn skrá sig á vef ArweGo.

Staðfest þátttaka fyrir 16. apríl nk. veitir 44% - 99% afslátt frá listaverði. Eru samningskjör einstakra sveitarfélaga birt í viðauka samningsins, en afsláttarkjör ráðast af fjölda stöðugilda á hverjum stað (ekki fjölda starfsfólks).

Algengasta orsök upplýsingaleka er mannleg mistök. Ýmsar hættur leynast í hversdagslegu starfsumhverfinu, sem valdið geta öryggisrofi. Myndböndin frá AwareGo fjalla um þær algengustu og hvetja til ábyrgrar hegðunar.

Rammasamningurinn var gerður í samráði við UT-hóp sambandsins og kynntur á persónuverndardegi sveitarfélaga í desember sl. Frumkvæði að málinu áttu nokkur sveitarfélög sem bentu sambandinu á myndböndin sem mögulega leið vegna starfsmannafræðslu um upplýsingaöryggi, auk þess sem slík fræðsla væri í samræmi við kröfur nýrra persónuverndarlaga.

Nánari upplýsingar um rammasaninginn og framkvæmd hans veitir Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGo, á ragnar@awarego.com eða Telma Halldórsdóttir, lögfræðingur á lögfræði- og velferðarsviði sambandsins, á telma.halldorsdottir@samband.is.