Ráðstefnan sem dróst á langinn

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2020 dróst sannarlega á langinn. Hún var sett 1. október í stafrænum heimi og hélt áfram 2. dag mánaðarins með hefðbundnum ávörpum og erindum. Síðan tóku við málstofur um fjármál sveitarfélaga – auðvitað á vefnum – sem haldnar voru alla föstudaga októbermánaðar, fjórar talsins og ein í nóvember. Víða hefur verið komið við á þessum málstofum.

Á þeirri fyrstu var fjallað um fjárhagsáætlanir og áskoranir sveitarfélaga, þá var farið yfir ýmsar upplýsingar sem gagnast við fjárhagsáætlanir. Lánamál og rekstur sveitarfélaga voru umræðuefni næstu tveggja föstudaga. Loks var haldin málstofa um kórónukreppuna og aðkomu ríkis að fjármálum sveitarfélaga. Þátttaka var með ágætum í þessum málstofum og um og yfir 100 þátttakendur í hverri. Upptökur má finna á vef sambandsins.

Kórónukreppan: Af hverju ætti ríkið að styðja við sveitarfélögin fjárhagslega?

Boðað var til málstofu um þetta efni föstudaginn 13. nóvember. Frummælendur voru tveir, annars vegar Sean Dougherty hagfræðingur hjá OECD og hins vegar Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka.

Í erindi Seans kom fram athyglisverður samanburður á milli sveitarfélaga í einstökum aðildarríkjum OECD. Íslensk sveitarfélög reiða sig í mun meira mæli en önnur á skatta sem þau sjálf leggja á. Á hinn bóginn er aðkoma íslenskra sveitarfélaga minni en flestra annarra að ýmsum verkefnum sem á reynir í faraldrinum, ekki síst heilbrigðismálum.

Sean tók saman nokkrar fyrirmyndar aðgerðir og áherslur í aðgerðum í þágu sveitarfélaga sem ríki ættu að stefna að.

  • „Don‘t hold back“. Sveitarfélögum kann að skorta lausafé til að komast í gegnum kreppuna og ríkinu er nauðsynlegt að styðja þau myndarlega til að þau geti sinnt sínum skyldum.
  • Aðstoð má veita í formi jöfnunarframlaga, með því að víkja fjármálareglum til hliðar, veita ábyrgðir eða lána frá ríkissjóði eða með því að bæta aðgengi að lánum.
  • Nauðsyn kann að vera að aðstoða sérstaklega sveitarfélög sem kreppan leikur hvað verst, ekki síst ef jöfnunarframlög minnka.
  • Rétt er að aðstoð verði gegnsæ og mikilvægt að fylgjast vel með þróun fjármála sveitarfélaga þannig að aðstoð komi til þeirra sem helst þurfa.

Sean tók saman ýmsar aðgerðir sem aðildarríki hafa ráðist í, en samantektin er byggð á könnun meðal ríkjanna og tók Ísland þátt í þeirri könnun. Meðal aðgerða sem hann nefndi og gætu nýst hér á landi má nefna.

  • Ítölsk fyrirtæki í ferðaþjónustu eru undanþegin fasteignasköttum tímabundið, en ríkið bætir tekjutap sveitarfélaga að fullu vegna þessa.
  • Í allmörgum ríkjum hafa ríkisstjórnir annað hvort veitt sveitarfélögum lán eða ríkisábyrgð á lántökur þeirra eins og t.d. í Bandaríkjunum.

„Erum í áfallinu núna“ sagði Kristrún í upphafi erindis síns sem bar heitið Samstarf sveitarfélaga og ríkissjóðs í COVID- hagstjórnaraðgerðir. „Þetta eru náttúruhamfarir og það er aðeins hið opinbera sem dreift getur áfallinu sem af hlýst og komið stuðningi til þeirra sem verða fyrir mesta áfallinu“. Sveitarfélögin hafa ekki þann sveigjanleika sem þarf til að gegna hagstjórnarhlutverki eins og ríkið sem m.a. hefur aðgang að seðlabanka og nýtur mun betri vaxtakjara. Lagði hún áherslu á að samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga um efnahagsaðgerðir. Varaði hún sérstaklega við því að án aðgerða þyrftu sveitarfélögin að draga verulega úr fjárfestingu og vinna þannig gegn markmiðum ríkisins.