Frá árinu 2018 hefur prentun á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga dregist saman um 78% eða úr 227.379 blöðum á ári niður í 50.804 blöð.
Árið 2018 var síðasta árið sem sambandið prentaði út fundargögn fyrir stóra fundi, s.s. landsþing og fjármálaráðstefnu. Á sama tíma gerði sambandið langtíma samning við PLT um prentara í húsnæði okkar þar sem hver og einn starfsmaður þurfti að skrá sig inn í prentara áður en prentverk var tekið úr tækinu. Prentun minnkaði um 27% milli áranna 2018 og 2019.
Árið 2020 var síðan tekið mikið stökk, enda lá hefðbundin starfsemi og fundahald mikið til niðri vegna heimsfaraldurs Covid-19. Minnkaði þá prentun um næstum helming, eða úr 167.007 blöðum niður í 93.334 blöð.
Betur má ef duga skal
En betur má ef duga skal. Á komandi misseri stefnum við að því að minnka prentun enn frekar þegar bókhaldið okkar verður alfarið pappírslaust. Við stefnum að því að á árinu 2023 verði prentun ekki meiri en 30.000 blöð yfir árið, eða um 1.000 blöð á hvern starfsmann sambandsins.