25. sep. 2015

„Óútfylltur tékki“ starfsmatsins

Afturvirkni starfsmats í sveitarfélögum var harðlega gagnrýnd í máli nokkurra fulltrúa á fjármálaráðstefnunni. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, reið á vaðið í þeim efnum og lagði spurningu fyrir forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Hvernig datt ykkur í hug að setja á okkur þennan starfsmatspakka? Útgjaldaaukinn er upp á marga milljarða króna vegna launabreytinga á árunum 2014 og 2015, ég ýki ekkert með þeirri fullyrðingu. Þetta er arfavitlaust og óskiljanlegt! Ég krefst þess að næst verði gengið svo frá málum að starfsmat taki ekki gildi fyrr en því er lokið.“

Fleiri tóku undir með Kristni, þar á meðal Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi á Akureyri:

„Ég er afskaplega ósáttur við að menn skuli semja um óútfylltan tékka vegna starfsmatsins. Matið í heild kostar Akureyrarbæ til dæmis um 300 milljónir króna, þar af  140 milljónir á árinu 2014. Þetta eru miklir peningar.“

SalurFos

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, taldi sig geta fullyrt að sveitarstjórnarmenn hafi haft verulegar væntingar til starfsmatsins og bætti við:

„Starfsmat hefur marga kosti, fyrst og fremst sem tæki til að jafna verulega launamun kynja. Það sýnir reynsla erlendis frá og okkur sýnist sama eiga við hér. Kerfið er hins vegar ekki gallalaust. Við sáum þannig ekki fyrir að matið yrði svona afturvirkt. Matsvinnan tók einfaldlega alltof langan tíma, þannig kom afturvirknin til. Hluti kauphækkunar í framhaldinu gildir fyrir árið 2014 og auðvitað er ömurlegt að fá svo stóra pakka í fangið núna, ári síðar. Starfsmat má einfaldlega ekki vera svona lengi í vinnslu í framtíðinni.“