Óskað eftir þátttöku í verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs

Samband íslenskra sveitarfélaga óskar eftir áhugasömum sveitarfélögum til þátttöku í verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs. Verkefnið hefst í desember 2023 og lýkur í júní 2024.

Kostnaður sveitarfélaga er að aukast verulega í tengslum við meðhöndlun úrgangs og er markmið verkefnisins að ná betri yfirsýn yfir kostnað sveitarfélaga í málaflokknum, hvernig hann hefur verið að þróast síðastliðin ár og út frá niðurstöðum leggja fram tillögur að hagræðingu í rekstri.

Gert er ráð fyrir að fimm sveitarfélög verði valin til þátttöku í verkefninu út frá ákveðnum valforsendum sem eru:

 • Dreifing yfir landið, m.t.t. til stærðar, staðsetningar, dreifbýli eða þéttbýli eða hvoru tveggja
 • Rekstrarform á þjónustu (samningur við verktaka, byggðasamlag eða annað)
 • Stöðu gagnvart innleiðingu nýrra lagakrafna
 • Svigrúm til að leggja fram vinnu til verkefnisins (mannauður, tími, geta o.s.frv.)
 • Aðgengi að upplýsingum

Þátttökusveitarfélög þurfa að tilnefna a.m.k. einn tengilið sem getur lagt fram ákveðna vinnu til verkefnisins sem felur í sér samskipti við ráðgjafa, gagnaöflun og setu á fundum. Þátttökusveitarfélög þurfa að vera reiðubúin til að vinna að gagnaöflun m.a. um þjónustu sem sveitarfélagið veitir og um kostnað og tekjur í úrgangsmálum og veita aðgengi ráðgjafa verkefnisins að gögnum sem unnið er með. Dæmi um gögn eru reikningar sem borist hafa sveitarfélaginu vegna meðhöndlunar úrgangs, samningar um kaup á þjónustu, vörum og framkvæmdum og önnur gögn sem  tengjast úrgangsstjórnun sveitarfélagsins. Þátttaka í verkefninu er innsigluð með undirritun viljayfirlýsingar allra aðila.

Ávinningur sveitarfélaga af þátttöku í þessu verkefni er aukin þekking á myndun kostnaðarliða og tekna í tengslum við meðhöndlun úrgangs. Auk þess munu sveitarfélög fá tillögur að úrbótum sem leiða til aukinnar hagkvæmni og bættrar heildaryfirsýnar í málaflokknum.

Sveitarfélögum, sem verða ekki valin til þátttöku, mun bjóðast að taka þátt í bakhópi um kostnað sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs sem settur verður á laggirnar á meðan verkefninu stendur.

Sveitarfélög sem vilja sækja um þátttöku í verkefninu er bent á að senda inn umsókn á skráningarsíðu hér. Tekið verður á móti umsóknum til og með 7. desember. Val á þátttökusveitarfélögum mun liggja fyrir 13. desember og verður niðurstaðan tilkynnt þeim sveitarfélögum sem óska eftir þátttöku fljótlega í kjölfarið. 

Nánar um verkefnið:

Sambandið leiðir verkefnið með aðstoð ráðgjafa sem munu vinna greiningarvinnuna og setja fram niðurstöður verkefnisins. Verkefnið er í tveimur áföngum og ráðgert er að hefja verkefnið í desember 2023 og að niðurstöður liggi fyrir í júní 2024.

Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum í verkefninu:

 1. Hvernig er kostnaður og tekjur sveitarfélaga að þróast fyrir meðhöndlun úrgangs síðastliðin 10 ár?
 2. Eru sveitarfélög að uppfylla lagakröfur þegar kemur að bókfærslum, gjaldskrárgerð og innheimtu vegna meðhöndlunar úrgangs?
 3. Hvernig þurfa bókhaldsfærslur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs að breytast svo þær nái betur utan um útgjaldaliði og tekjur í málaflokknum og styðji við breytta innheimtu sveitarfélaga vegna innleiðingar Borgað þegar hent er?
 4. Eru sveitarfélög með nægjanlegar upplýsingar og yfirsýn yfir kostnaðarmyndun í málaflokknum?
 5. Hver er kostnaðarþátttaka Úrvinnslusjóðs vegna kostnaðar sveitarfélaga á meðhöndlun á úrgangi á ábyrgð Úrvinnslusjóðs?
 6. Hvernig eru fjárfestingar að stuðla að því að sveitarfélög uppfylli hlutverk sitt og ábyrgð skv. nýju lögunum og eru vísbendingar um að innviði skorti?