Sveitarfélög hafa unnið að því að innleiða Borgað þegar hent er (BÞHE) kerfi sem aðferð við innheimtu fyrir meðhöndlun úrgangs (sorphirðugjöld) með aðstoð sambandsins í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).
Með nýlegum lagabreytingum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis er sveitarfélögum gert að koma því þannig fyrir að innheimta verði sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs niður á hvern aðila og að fast gjald skuli takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi en sambandið hélt opinn kynningarfund um BÞHE í febrúar á síðasta ári og opinn vinnufund í maí. Einnig hleypti sambandið af stokkunum BÞHE hraðli á grunni greiningar ráðgjafarstofunnar EFLU sem sambandið lét vinna og gaf út í janúar. Grímsnes- og Grafningshreppur og Ísafjarðarbær tóku þátt í hraðlinum í október til lok árs og á grunni þeirrar reynslu var fleiri sveitarfélögum boðið að taka þátt í innleiðingarverkefni á BÞHE kerfi.
Samtals hafa í dag 18 sveitarfélag unnið með sambandinu að innleiðingu Borgað þegar hent er kerfa. Átta þeirra eru þegar byrjuð að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs eftir fjölda og stærð íláta auk þess sem Reykjavíkurborg hefur viðhaft slíkt kerfi í nokkur ár. Umhverfis, orku og loftslagsráðuneytið hefur styrkt verkefnið um allt að 600 þkr á hvert sveitarfélag vegna aðkomu HMS sem rekur álagningarkerfið sem innheimt er með.
Sambandið hefur enn þá svigrúm til að bæta við þátttökusveitarfélögum og vill bjóða fleiri sveitarfélögum til samstarfs en miðað er við eftirfarandi tímaramma.
- apríl-maí 2023: Kynningarfundir og leiðbeiningar.
- maí-ágúst 2023: Ílátatalning og undirbúningsvinna. Sveitarfélagið fær staðfangaskrá frá HMS fyrir sitt svæði og kortleggur ílát niður á staðföng.
- ágúst-desember 2023: Sveitarfélagið kortleggur kostnað vegnar meðhöndlunar úrgangs í sveitarfélaginu og útbýr gjaldskrá samkvæmt Borgað þegar hent er kerfi.
- janúar 2024: Lagt er á með nýjum hætti.
Fyrsti fundur verkefnisins verður haldinn 17. apríl næstkomandi og er það jafnframt frestur til þess óska eftir þátttöku.
Áhugasömum sveitarfélögum er bent á að senda tölvupóst á Þorgerði M. Þorbjarnardóttir á netfangið thorgerdurm@samband.is fyrir fyrsta fundinn, 17. apríl.