Í júlí sl. sendi Umhverfisstofnun beiðni um umsögn til allra sveitarfélaga um drög að stefnu umhverfisráðherra í úrgangsmálum. Þann 23. ágúst sl. sendi Samband íslenskra sveitarfélaga ítarlega umsögn um drögin þar sem kallað er eftir frekara samráði um málið.
Í júlí sl. sendi Umhverfisstofnun beiðni um umsögn til allra sveitarfélaga um drög að stefnu umhverfisráðherra í úrgangsmálum. Þann 23. ágúst sl. sendi Samband íslenskra sveitarfélaga ítarlega umsögn um drögin þar sem kallað er eftir frekara samráði um málið.
Að mati sambandsins er hér um mjög stórt mál að ræða og er m.a. lögð áhersla á það í umsögninni að þær tillögur sem nú liggja fyrir af hálfu Umhverfisstofnunar þurfi að hljóta vandaða ábata- og kostnaðargreiningu. Áherslur í drögunum gangi t.a.m. í sumum tilvikum lengra en gerð er krafa um í EES-löggjöf og ljóst er að kostnaðaráhrif geti orðið veruleg fyrir sveitarfélög og þar með skattgreiðendur.
Örugg meðhöndlun úrgangs er lykilatriði
Sambandið leggur áherslu á að flokkun úrgangs og sérstök söfnun þurfi að haldast í hendur við þá meðhöndlun sem á eftir kemur. Mörg sveitarfélög hafa mikinn metnað til að gera vel í þessum efnum og hafa eða hyggjast ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar til að ná betri árangri í málaflokknum. Í áliti sínu telur sambandið því nauðsynlegt að gefa meðhöndlun úrgangsins, eftir að hann hefur verið flokkaður, meiri gaum í stefnunni og fjalla nánar um hvaða verkfæri sveitarfélögin hafa til að ná markmiðum sem þeim er gert að ná í endurvinnslu og endurnýtingu.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent öllum framkvæmdastjórum sveitarfélaga bréf þar sem m.a. koma fram áhyggjur sambandsins um að of mikil áhersla sé t.a.m. á samræmdar aðferðir við sorphirðu þar sem krafa ríkisins um sérsöfnun við heimili og við aðsetur lögaðila geti leitt til óþarflega mikils kostnaðar fyrir skattgreiðendur án þess að skila endilega betri árangri í endurvinnslu.
Sveitarstjórnarmenn eru hvattir til að fylgjast með framvindu málsins og koma á framfæri ábendingum ef þeir telja tilefni til. Sambandið hefur væntingar um að brugðist verði við umsögninni með frekara samráði og að sveitarfélögum gefist aftur færi til þess að veita umsögn um drög að stefnunni þegar kemur að birtingu í samráðsgátt Stjórnarráðsins.