Orkuendurvinnsla á plasti

Leita verður allra leiða til að takast á við plastmengun, einn alvarlegasta umhverfisvanda samtímans. Orkuendurvinnsla á plasti er sú leið sem litið er helst til á hinum Norðurlöndunum. Ekki er síður mikilvægt að eyða plasti en að endurvinna plast, svo að ná megi  tökum vandanum.   

Leita verður allra leiða til að takast á við plastmengun, einn alvarlegasta umhverfisvanda samtímans. Orkuendurvinnsla á plasti er sú leið sem litið er helst til á hinum Norðurlöndunum. Ekki er síður mikilvægt að eyða plasti en að endurvinna plast, svo að ná megi  tökum vandanum.   

Fjallað var um vaxandi útbreiðslu plasts í náttúrinni í fréttaskýringarþættinum Kveik í gærkvöldi. Í þættinum var greinargóð en áleitin mynd dregin upp af þeim áskorunum sem uppsöfnun plasts hefur í för með sér fyrir lífríki láðs og lagar. Hvergi sér fyrir endann á þessari skaðlegu uppsöfnun, sem rekja má í meginatriðum til þess að plast brotnar niður á löngum tíma, jafnvel nokkrum hundruðum ára.

„Bráðavandinn felst í uppsöfnun og í ljósi þess er ekki síður mikilvægt að taka plast úr umferð með því að eyða því,“ segir Lúðvík E. Gústafsson, verkefnisstjóri umhverfismála, hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. „Á hinum Norðurlöndunum eru starfræktar  brennslustöðvar sem eyða plasti á umhverfisvænan hátt. Það tæki einfaldlega of langan tíma að komast fyrir vind í þessum brýnu málum með því einu að hætta að framleiða nýtt plast og nota einungis endurnýtt plast.“

Verulegar breytingar hafa átt sér stað á endurvinnslumarkaði fyrir plast, sem dregist hefur hratt saman samfara því að kínverskir endurvinnsluaðilar hafa dregið verulega úr innkaupum á plasti. Bendir Lúðvík á að þessi staða þrýsti enn frekar á um eyðingu plasts. „Orkuendurvinnsla er algengasta aðferðin á hinum Norðurlöndunum í dag, en í því felst að orkan sem myndast við brennslu á plasti er nýtt til raforkuframleiðslu eða upphitunar. Við erum þó enn tiltölulega skammt á veg komin í þessari tegund á endurvinnslu og getum því ekki nýtt hana nema með útflutningi á plasti til orkuendurvinnslu."

Þess má svo geta að Samband íslenskra sveitarfélaga sendi nýlega frá sér ítarlega umsögn um fyrirliggjandi drög að aðgerðaáætlun um að draga úr plastmengun.