Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur og stjórnarmaður Sorpu, og Valgeir Páll Björnsson, verkefnastjóri hjá Sorpu, hafa tekið saman minnisblað um örbrennslur.
Minnisblaðið, sem er dagsett 15. febrúar 2024, byggir á ferð nokkurra fulltrúa sveitarfélaga, Sorporku ehf. og Sorpu bs. til fyrirtækisins Ferroplan Oy í Finnlandi þar sem slíkri örbrennslustöð hefur verið komið upp. Beinn kostnaður við brennslustöð sem þessa er áætlaður um 640-820 m.kr. sem myndi kalla á hliðgjöld upp á 59 - 72 kr./kg. án óvissu, vaxtakostnaðar og arðsemiskröfu. Stöðin er þróuð af aðila sem er að leita að fyrsta kaupanda og væri þetta verkefni því meira í þágu rannsókna og prófana. Stöðin flokkast sem tilrauna- og nýsköpunarverkefni og er áhugaverð sem slík. Yrði stöðin samt vart samkeppnishæf við útflutning miðað við núgildandi forsendur.
Það sem einkennir stöðina er að allt er gámabyggt og allt gert til að vera færanlegt. Stöðin tekur við smærra efni, forhreinsuðu og forunnu en efnið þarf að vera þurrt til að geta brunnið. Ekki liggja fyrir gögn um að stöðin uppfylli kröfur um orkunýtingu svo að brennsla úrgangsins geti talist til endurnýtingar í stað förgunar. Óljóst er hversu mikið af brennanlegum úrgangi geti raunverulega hentað í örbrennslu sem þessa, sem dæmi virðist sláturúrgangur ekki henta inn í slíka vinnslu.