Opnun verkfærakistu Loftslagsvænni sveitarfélaga

Miðvikudaginn 22. september kl. 8:30-10:30 efnir Samband íslenskra sveitarfélaga til fjarfundar með sveitarfélögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga um opnun verkfærakistu í loftslagsmálum sveitarfélaga.

Þróun verkfærakistunnar hefur staðið yfir í tæpt ár og er henni ætlað að efla og styðja íslensk sveitarfélög við að vinna aðgerðamiðaða stefnumótun í loftslagsmálum, fylgja henni eftir og vakta árangur sinn. Verkefnið er kynnt undir hatti Loftslagsvænni sveitarfélaga og er fundurinn jafnframt hugsaður sem sjötti tengiliðafundur Samstarfsvettvangs sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmiðin sem stofnaður var í júní 2019.

Verkfærakista Loftslagsvænni sveitarfélaga á að gagnast bæði minni og stærri sveitarfélögum og í henni er að finna ýmiss konar verkfæri og fróðleik sem gerir sveitarfélögum kleift að meta losun frá rekstri sínum og móta sér viðeigandi markmið og aðgerðir í loftslagsmálum sem eru grunnur fyrir árangursríka loftslagsstefnu. Verkefnið er hluti af Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum 2020-2030 og hafði Samband íslenskra sveitarfélaga umsjón með gerð verkfærakistunnar sem var unnin með styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og í samráði við ráðuneytið og Umhverfisstofnun sem mun sjá um rekstur hennar.  

Verkfærakista Loftslagsvænni sveitarfélaga skiptist í tvo hluta. Annars vegar opinn ytri vef sem meðal annars inniheldur almennar upplýsingar um loftslagsstefnur sveitarfélaga, hugmyndir að aðgerðum sem sveitarfélög geta ráðist í til að minnka losun frá rekstri og annað fræðslu- og kynningarefni sem nýtist sveitarfélögum. Hinn hluti verkfærakistunnar er innri vefur sem hvert og eitt sveitarfélag hefur aðgang að og hefur að geyma losunarreikni sniðinn að fjölbreyttum rekstri sveitarfélaga auk þess sem sveitarfélög geta á innri vefnum haldið utan um sína losunarútreikninga, loftslagsstefnu og aðgerðaáætlun.

Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn en tengill inn á fundinn verður sendur til fundarmanna að morgni fundardags auk þess sem hann verður settur inn á vefsíðu sambandsins.

Opnun verkfærakistu Loftslagsvænni sveitarfélaga

– innleiðing heimsmarkmiðs 13

Jafnframt sjötti tengiliðafundur Samstarfsvettvangs sveitarfélaganna um loftslagsmál og Heimsmarkmiðin

Fundurinn fer fram í fjarfundi þann 22. september 2021, kl. 8:30-10:30

Ávarp
Verkfærakista Loftslagsvænni sveitarfélaga
Eygerður Margrétardóttir verkefnisstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ægir Þorsteinsson framkvæmdastjóri Aranja
Næstu skref: skil til Umhverfisstofnunar
Ásdís Nína Magnúsdóttir sérfræðingur hjá Umhverfistofnun
Mótun og innleiðing stefnu í loftslagsmálum, reynsla nokkurra sveitarfélaga - reynsla nokkurra sveitarfélaga
Þýðing skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar fyrir sveitarfélög
Óttar Freyr Gíslason forstöðumaður Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga
Heimsmarkmiðavinna sveitarfélaga, kynning á stuðningsverkefni
Anna G. Björnsdóttir sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Umræður
Lokaorð - fundarstjóri

Fundarstjóri: Guðjón Bragason sviðstjóri Sambandi íslenskra sveitarfélaga.