Opnun Sveitarfélagaskólans

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur um langt skeið staðið fyrir fræðslu í upphafi kjörtímabils fyrir nýkjörið sveitarstjórnarfólk með staðnámskeiðum.

Þar var farið yfir helstu atriði er sveitarstjórnarfólk þarf að þekkja; m.a. starfsumhverfi, skyldur og hlutverk sveitarstjórna, fjármál sveitarfélaga og margt fleira. Til að auka aðgengi að fræðslunni og gera hana sveigjanlegri, gagnvirkari og dýpri var ákveðið að færa námskeiðsefnið yfir á stafrænan vettvang sem hlotið hefur nafnið Sveitarfélagaskólinn. Í samstarfi við Opna háskólann í Reykjavík hafa þegar verið framleidd níu stafræn námskeið sem standa munu sveitarstjórnarfólki til boða gegn vægu gjaldi.

Sveitarfélagaskólinn opnar strax eftir kosningar þann 16. maí og verða flest námskeiðin aðgengileg þá þegar og hin fylgja fljótlega í kjölfarið. Við hvetjum stjórnendur sveitarfélaga til að kaupa aðgang að námskeiðunum fyrir nýkjörið, sem og endurkjörið sveitarstjórnarfólk strax að loknum kosningum.

Athygli er vakin á því að þótt námskeiðin séu hugsuð fyrir nýkjörið sveitarstjórnarfólk þá eru námskeiðin mjög nytsamleg fyrir starfsfólk sveitarfélaga, t.d. sviðsstjóra og starfsmenn nefnda. 

Vonir sambandsins standa til þess að með Sveitarfélagaskólanum verði námsefnið skemmtilegra, skipulagðara og aðgengilegra fyrir þátttakendur, en einnig að námskeiðin efli sveitarstjórnarfólk til góðra starfa sveitarfélagi og samfélagi til heilla.