Opnað fyrir aðra umferð umsókna um styrk vegna barna á flótta

Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir styrk til stuðnings sveitarfélögum þar sem börn á flótta eru búsett.

Styrknum er ætlað að ná til allra barna sem fengið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum frá 1. janúar 2021 til 31. ágúst 2023. Markmiðið með styrknum er að styðja við móttöku barna sem hafa neyðst til þess að flýja heimaland sitt vegna átaka.

Veittur er styrkur til verkefna sem snúa að

  1. stuðningi innan skóla og frístundastarfs,
  2. stuðningi við barnaverndarnefndir og önnur úrræði fyrir fjölskyldur á flótta.

Styrkurinn miðar við þann fjölda barna sem nýtur alþjóðlegrar verndar eða er með dvalarleyfi af mannúðarástæðum í hverju sveitarfélagi. Hægt er að sækja annars vegar um 125.000 kr. styrk vegna hvers barns sem er yngra en 6 ára og hins vegar 200.000 kr. styrk vegna barns sem er eldra en 6 ára.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir á ný fyrir þau börn sem flust hafa til sveitarfélags eftir að fyrri umsókn sveitarfélaga var send til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Hér er átt við þau börn sem hefur ekki verið sótt um styrk fyrir áður. Hafi sveitarfélag sótt um styrk vegna barns er ekki hægt að sækja um aftur fyrir sama einstakling.

Umsóknarfrestur er til og með 15. september.