12. des. 2018

Opinbert leigufélag í burðarliðnum

Flestar fasteignir á vegum Íbúðalánasjóðs verða færðar inn í nýtt leigufélag, sem leigja mun eignirnar út með áherslu á hagkvæma útleigu á landsbyggðinni. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, vill fá sveitarfélög til samstarfs við nýja félagið. Að mati sérfræðings hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga gæti slíkt félag aukið valkosti sveitarfélaga í húsnæðismálum. 

Nýja leigufélagið verður nefnt Bríet og tók félagsmálaráðherra fram á fundi um húsnæðismál, sem fram fór í Dalabyggð í dag, að félaginu sé ætlað að bæta gæði, auka framboð og draga úr kostnaði vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Mörg sveitarfélög reki nú þegar slíkt húsnæði og telur ráðherra að ná megi þessum markmiðum, sameinist ríki og sveitarfélög um slíkan rekstur á óhagnaðardrifnum forsendum.

Í frétt frá velferðarráðuneyti er haft eftir ráðherra að Finnar hafi með góðum árangri farið svipaða leið í kjölfar húsnæðiskrísu. Samstaða sé jafnframt mikilvæg og að farið verði strax í aðgerðir sem nýtist fólki í húsnæðikröggum. Stjórnvöld þurfi fjölbreyttar lausnir til að taka á við húsnæðisvandann.

Að sögn Tryggva Þórhallssonar, lögfræðings á lög- og velferðarsviði sambandsins, er stofnun leigufélagsins sem slíks jákvæð aðgerð fyrir leigumarkað á landinu. Mögulega hefði verið einfaldara að byggja slíka starfsemi upp á grunni hvers landshluta, en enda þótt niðurstaðan hafi orðið sú að stofna eitt félag fyrir allt landið, þá geti það aukið valmöguleika sveitarfélaga í húsnæðismálum. Eðlilegt sé því að sveitarfélög taki til skoðunar hvaða tækifæri stofnun félagsins geti falið í sér fyrir hvert og eitt.

Íbúðum í byggingu hefur farið fjölgandi upp á síðkastið, en þó aðallega á suðvesturhorninu. Opinbera leigufélagið mun því leggja sérstaka áherslu á landsbyggðina. Að mati ráðherra má heita ljóst, að íbúar og atvinnurekendur annars staðar á landinu geti ekki beðið lengur. Það sé því rökrétt skref að leggja íbúðir, sem ríki á í gegnum íbúðalánasjóð, inn í nýja félagið. Stór hluti þeirra sé nú þegar í útleigu, en skort hafi á viðhald og langtímaöryggi leigjenda.

Stofnun Bríetar mun, að sögn talsmanna Íbúðalánasjóðs, ekki hafa áhrif á hag núverandi leigjenda hjá sjóðnum.