Opinberir vinnustaðir virkir í nýsköpun

Nýsköpunardagur hins opinbera var haldinn í fyrsta sinn í dag fyrir fullu húsi í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Að deginum stendur Fjármála- og efnahagsráðuneytið ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Nýsköpunardagur hins opinbera var haldinn í fyrsta sinn í dag fyrir fullu húsi í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Að deginum stendur Fjármála- og efnahagsráðuneytið ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnaði í tilefni dagsins nýja vefsíðu um opinbera nýsköpun. Í ávarpi sínu vék ráðherra m.a. að Nýsköpunarvoginni, samnorrænni könnun á stöðu nýsköpunar. Niðurstöður hennar leiða í ljós að 78% opinberra vinnustaða hér á landi hafa innleitt að minnsta kosti eitt nýsköpunarverkefni á síðastliðnum tveimur árum. Sagði Bjarni það sérstakt ánægjuefni, hversu virkir opinberir vinnustaðir væri í nýsköpun, en slík verkefni hafa í 73% tilfella skilað sér í auknum gæðum, 67% tilvika í aukinni skilvirkni og í helmingi tilvika í aukinni starfsánægju.

Nýja vefsíðan er á meðal aðgerða stjórnvalda til stuðnings nýsköpunar á vegum hins opinbera. Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á nýsköpun og er aðild Ísland að yfirlýsingu OECD ríkjanna um opinbera nýsköpun, sem undirrituð var í nú maí, liður í þeirri viðleitni.

Af áhugaverðum erindum dagsins má svo nefna nýsköpun með samsköpun, sem Anne Tortzen, fjallaði um, en Anne er einn helsti sérfræðingur Norðurlandanna í úrlausn flókinna viðfangsefna í opinberri þjónustu með samsköpun. Þá kynntu Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær nýsköpunarverkefni innan sinna raða og sagt var frá nýsköpunarmóti sem haldið verður nú í haust með það að markmiði, að auka samstarf opinberra aðila og einkaaðila - svo að fátt eitt sé nefnt.

Dagskrá nýsköpunardagsins var send út í beinu streymi. Upptöku af deginum má nálgast hér að neðan, en glærur framsögumanna eru á nýja nýsköpunarvefnum: opinbernyskopun.island.is

Upptaka frá Nýsköpunardegi hins opinbera