Opið umsagnarferli fyrir hagaðila og almenning

Kerfisáætlun Landsnets um uppbyggingu á flutningskerfi raforku á Íslandi 2018-2027 er í opnu umsagnarferli. Minnt er á að frestur til að skila inn athugasemdum er til 15. júlí nk.

Landsnet hefur sett í opið umsagnarferli tillögu að kerfisáætlun um uppbyggingu  á flutningskerfi raforku á Íslandi.

Umsagnarferlið veitir hagaðilum jafnt sem almenningi tækifæri til að koma að innihaldi kerfisáætlunarinnar. Eru þeir sem vilja nýta sér það, hvattir til að koma umsögn sinni á framfæri við Landsnet.

Umsagnarfrestur er til 15. júlí nk.

Kerfisáætlunin er sú 12. sem lögð hefur verið fram frá stofnun Landsnets og skiptist í tvo meginhluta eða langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisins til ársins 2027 annars vegar og þriggja ára framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2019-2021 hins vegar.
Með kerfisáætluninni var unnið mat á umhverfisáhrifum og er það birt í  umhverfisskýrslu áætlunarinnar.

Landsnet hélt í júní sl. opna kynningarfundi um kerfisáætlunina í Reykjavík, á Egilstöðum, Akureyri, Ísafirði og á Hellu.

Tekið er við ábendingum og athugasemdum við kerfisáætlun og um umhverfisskýrsluna á landsnet@landsnet.is. Einnig má senda skriflegar athugasemdir á Landsnet, Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík, í umslagi merktu Athugasemdir við kerfisáætlun 2018-2027.