Opið fyrir umsóknir vegna samstarfsverkefnis sambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga óska eftir þátttöku sveitarfélaga í samstarfsverkefni sem miðar að því að endurskoða forsendur úthlutunar og ráðstöfunar fjármuna til kennslu og stuðnings í grunnskólum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga óska eftir þátttöku sveitarfélaga í samstarfsverkefni sem miðar að því að endurskoða forsendur úthlutunar og ráðstöfunar fjármuna til kennslu og stuðnings í grunnskólum.

Verkefni þetta tengist úttekt og tillögum Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar frá árinu 2017 sem miðaði að því að skoða framkvæmd opinberrar menntastefnu á Íslandi um skóla fyrir alla.

Ein þriggja megintillagna úttektarinnar lýtur að ráðstöfun fjármuna og nauðsyn endurskoðunar á reglum og hugmyndafræði sem þar hefur verið lögð til grundvallar. Markmið verkefnisins er að auka skilvirka nýtingu fjármuna og endurskoða viðmið um forsendur ráðstöfunar þeirra.

Menntamálaráðuneytið og sambandið óska eftir sveitarfélögum sem vilja taka þátt í verkefninu.

AUGLÝSING

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga óska eftir þátttöku sveitarfélaga í samstarfsverkefni um endurskoðun á forsendum úthlutunar og ráðstöfunar fjármuna til kennslu og stuðnings í grunnskólum. Meginmarkmið endurskoðunarinnar er að reglum um fjárframlög verði breytt þannig að áhersla verði lögð á snemmbæran stuðning og forvarnir til þess að auka hæfni kerfisins til að starfa á grundvelli jafnaðar, skilvirkni og hagkvæmni.

Samstarfsverkefnið er þróunarferli, sem tekur til hugmyndavinnu um forsendur úthlutunar og ráðstöfunar fjármuna í grunnskóla og hvernig best er að innleiða mögulegar breytingar, í samræmi við ábendingar sem fram komu í úttektarskýrslu Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Í vinnunni verður lögð áhersla á nýsköpun og hugmyndaauðgi þátttakenda sem byggir á sýn þeirra og reynslu.

Stefnt er að því að verkefnið hefjist í mars 2020 og í árslok liggi fyrir leiðbeinandi viðmið fyrir sveitarfélög um hvernig best verði staðið að skilgreiningum á forsendum úthlutunar og ráðstöfunar fjármuna til kennslu og stuðnings í grunnskóla fyrir alla. Verkefninu verður stýrt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu með aðkomu sérfræðinga frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Með þátttöku sveitarfélaga í verkefninu skuldbinda þau sig til vinnuframlags og greiðslu ferða- og fundakostnaðar.

Þau sveitarfélög sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eða fá frekari upplýsingar um það eru beðin að hafa samband við Ragnar Þorsteinsson í mennta- og menningarmálaráðuneytinu (ragnar.s.thorsteinsson@mrn.is), fyrir 14. mars n.k.