Opið fyrir umsóknir um náttúrumiðaðar lausnir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um stuðning við tilraunaverkefni um náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum. Tilgangur verkefnisins er að öðlast hagnýta reynslu og nýja þekkingu á innleiðingu náttúrumiðaðra lausna í norrænu samhengi.

Verkefnið er hluti af fjögurra ára áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um náttúrumiðaðar lausnir sem samanstendur af fimm fösum sem framkvæmdir eru á árunum 2021 til 2024. Þetta útboð er hluti af fasa tvö í áætluninni.

Sveitarfélög, rannsóknastofnanir og aðrar sjálfseignarstofnanir, háskólar og frjáls félagasamtök geta sótt um styrkinn. Einkafyrirtæki geta ekki verið aðalumsækjandi en geta verið þátttakendur í verkefninu, tekið þátt í verkefnahópum eða tekið að sér verkefnisstjórn fyrir hönd aðalumsækjanda.