Óhóflegar heimildir til að leggja sektir á opinbera aðila í persónuverndarfrumvarpi

Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir harðlega vinnubrögð við gerð frumvarps til nýrra persónuverndarlaga. Hörðust er gagnrýnin á sektarákvæði frumvarpsins, sem heimila Persónuvernd að leggja milljarða króna sektir á opinbera aðila vegna lögbundinna verkefna. Einnig sætir innleiðingarferli gagnrýni ásamt þeim mikla og óþarfa flýti sem einkennt hefur málið af hálfu ríkisvaldsins. Sambandið skorar á Alþingi að veita málinu eðlilega umfjöllun og tryggja að ákvæði þar sem val um innleiðingu er til staðar séu ígrunduð vandlega.

Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir harðlega vinnubrögð við gerð frumvarps til nýrra persónuverndarlaga. Hörðust er gagnrýnin á sektarákvæði frumvarpsins, sem heimila Persónuvernd að leggja milljarða króna sektir á opinbera aðila vegna lögbundinna verkefna. Einnig sætir innleiðingarferli gagnrýni ásamt þeim mikla og óþarfa flýti sem einkennt hefur málið af hálfu ríkisvaldsins. Sambandið skorar á Alþingi að veita málinu eðlilega umfjöllun og tryggja að ákvæði þar sem val um innleiðingu er til staðar séu ígrunduð vandlega.

Ljóst er að mati sambandsins ný persónuverndarlöggjöf er afar umfangsmikil og mun hafa gríðarlega mikil áhrif á opinbera aðila sem og einkaaðila. Vísað er til bókunar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá desember 2011 þar sem áréttað var mikilvægi þess að jafn viðamikið mál fái vandaða umfjöllun og samráð og að ekki megi gefa afslátt af slíkum kröfum. Skammur fyrirvari á lagasetningu kalli einnig á að skoðaðir verði möguleikar á aðlögunarfrestum fyrir sveitarfélögin. Tekið er fram að sambandið er fylgjandi markmiðum frumvarpsins um að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Telur sambandið það sameiginlega hagsmuni sveitarfélaga og borgara að gætt sé vandlega að meðferð persónuupplýsinga. Sambandið telur hins vegar málið af þeirri stærðargráðu að það þurfi ítarlega umfjöllun, en þær fyrirætlanir að að klára afgreiðslu frumvarps á innan við tveimur vikum geri það ómögulegt að vandað sé til verka við afgreiðslu frumvarpsins.

Í umsögninni kemur fram að engin rök standi til þess, að gengið verði lengra við innleiðingu reglugerðarinnar en nauðsyn beri til, sérstaklega í tilviki sektargreiðslna. Það að innleiða mögulegar sektargreiðslur á hendur einstökum sveitarfélögum fyrir allt að 2,4 milljörðum króna feli í sér óhóflega heimild til handa eftirlitsaðila. Með öllu óskiljanlegt sé, af hverju gengið sé jafn langt og raun beri vitni, sérstaklega í ljósi þess að reglugerðin leggi það alfarið í hendur einstakra ríkja hvort yfir höfuð eigi að innleiða sektir gagnvart opinberum aðilum. Hámarksákvæði um sektir séu einnig á forræði aðildarríkja. Mikilvægt sé í þessu sambandi að hafa hugfast,  að rekstur sveitarfélaga og annarra opinberra aðila sem sinna lögboðinni þjónustu er allt annars eðlis en rekstur fyrirtækja á markaðsforsendum.

Þá telur sambandið nauðsynlegt, sé það á annað borð ætlun löggjafans að ljúka afgreiðslu málsins nú á vorþingi,  að skoðað verði sérstaklega hvort fresta þurfi gildistöku gagnvart sveitarfélögum a.m.k. að hluta meðan eðlilegur tími gefst til að innleiða þær viðamiklu breytingar sem reglugerðin kallar á.

Sambandið telur enn fremur algjörlega óraunhæft að stefna á gildistöku í byrjun júli, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ógerningur sé fyrir sveitarfélögin að ljúka  nauðsynlegum undirbúningi fyrir þann tíma, ekki hvað síst í ljósi þess að þau fari með mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum vegna lögbundinna verkefna, s.s. í leik- og grunnskólarekstri, félagsþjónustu, öldrunarþjónustu, leyfisveitingum og starfsmannahaldi.

Mikilvægum spurningum er, að mati sambandsins, jafnframt enn ósvarað sem lúta að umfangi eftirlits og hversu íþyngjandi það muni reynast þegar til framtíðar er litið. Áréttað er, að hægt er að fara offari í opinberu eftirliti og heimildum eftirlitsaðila og það eigi ekki síður við um persónuvernd en aðra málaflokka.

Um áætlaðan kostnað sveitarfélaga við innleiðingu á persónuverndarlögum kemur fram, að hann nemi 680 til 980 m.kr. á fyrsta ári innleiðingar. Fastur rekstrarkostnaður eftir innleiðingu er ætlaður í kringum 380 m.kr. á ári.  Kostnaður sveitarfélaga felst m.a. í því að þau þurfa að kortleggja alla vinnu persónuupplýsinga, þjálfa starfsmenn, útbúa ferla og stöðluð skjöl, gera nýja samninga við alla vinnsluaðila og ráða persónuverndarfulltrúa, kaupa tölvukerfi o.fl.

Að lokum bendir sambandið á að ekki hefur farið fram heildstæð greining á því hvort nauðsynlegt er að setja ákvæði í sérlög eða heimildir á sviðum þar sem unnið er með mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum eins og í mannauðsmálum. Hafði sambandinu fyrir nokkru verið kynnt að yfir stæði vinna við skoðun á lagaheimildum sem sveitarfélög og aðrir byggja sína vinnu á en engar upplýsingar hafa borist um hvar það mál er statt eða hvernig tryggt verður að vinnsla sveitarfélaga byggi á fullnægjandi lagaheimildum.