Nýtt þjónustukort verður byggt upp í áföngum

Byggðastofnun opnaði nýlega kortasjá sem sýnir aðgengi almennings að þjónustu á öllu landinu. Um fyrsta áfangann er að ræða í gerð gagnvirks þjónustukorts sem styðja mun við stefnumótun stjórnvalda í byggðaþróun.  

Thjonustukort-byggdastofnunarByggðastofnun opnaði nýlega kortasjá sem sýnir aðgengi almennings að þjónustu á öllu landinu. Um fyrsta áfangann er að ræða í gerð gagnvirks þjónustukorts sem styðja mun við stefnumótun stjórnvalda í byggðaþróun.  

Kortasjáin er hluti af stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Segir m.a. í sáttmálanum að gera skuli í samstarfi við sveitarfélögin þjónustukort, sem sýnir aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu, bæði á vegum opinbera aðila og einkaaðila.

Markmiðið er að skapa yfirsýn yfir þá þjónustu sem er til staðar og leggja með því móti grunn að bættri þjónustu við almenning, auknum tækifærum til nýsköpunar og frekari stefnumótun á sviði byggðamála.

Þjónustukortið er aðgengilegt á slóðinni thjonustukort.is og verður unnið í nokkrum áfögnum, eins og áður segir. Fyrsti áfanginn sýnir aðgengi að opinberri þjónustu á sviði heilbrigðis-, fræðslu- og löggæslumála.

Ýmsar upplýsingar vantar enn í kortið eins og það er núna, auk þess sem hönnun útlits og framsetningar á eftir að þróast. Við vinnuna hefur Byggðastofnun m.a. notið aðstoðar Landmælinga Íslands og ráðgjafarfyrirtækisins Alta ehf.

Tilgangur með opnun kortasjárinnar nú, er að gefa almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum kost á að koma á framfæri ábendingum og hugmyndum til Byggðastofnunar um útfærslu og þróun þjónustukortsins.

 

Ábyrgð á framkvæmd verkefnisins er hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fól hann Byggðastofnun að annast gerð þjónustukortsins í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, einstök ráðuneyti eftir því sem við á, stofnanir ríkisins og eftir atvikum fleiri aðila.