Nýsköpunarverðlaun 2018 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu

Rafræna lyfjaumsjónarkerfið ALFA hlaut nýsköpunarverðlaunin 2018 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Verðlaunin veitti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í lokin á ráðstefnunni „Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“. Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Skútustaðarhreppur og Vatnajökulsþjóðgarður hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun.

Rafræna lyfjaumsjónarkerfið ALFA hlaut nýsköpunarverðlaunin 2018 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Verðlaunin veitti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í lokin á ráðstefnunni „Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“. Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Skútustaðarhreppur og Vatnajökulsþjóðgarður hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun.

Nálgast má upptöku af ráðstefnunni á hlekk hér að neðan.

Alls voru 33 verkefni tilnefnd til nýsköpunarverðlauna. Verkefnið sem bar sigur úr býtum er samvinnuverkefni Öldrunarheimila Akureyrar, Akureyrarkaupstaðar, Lyfjavers ehf. og Þulu – Norræns hugvits.

ALFA er stafræn lausn á lyfjaumsjónarkerfi sem þróuð var í þeim tilgangi að einfalda lyfjaskráningu, rekstur á lyfjalager og samskipti á milli öldrunarheimila og birgja. Hefur verkefnið leitt af sér verulegra hagræðingu og umbætur í rekstri öldrunarheimila.

Þá hlutu einnig fjögur verkefni sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu: Ísafjarðarbær fyrir „Blábankinn, samfélagsmiðstöð á Þingeyri“; Kópavogsbær fyrir „Social Progress Portrait; Mælikvarði á félagslegar framfarir í Kópavogi og MÆLKÓ“, Skútustaðahreppur fyrir „Umbótaáætlun í fráveitumálum í Mývatnssveit“ og Vatnajökulsþjóðgarður fyrir „Sjálfvirk innheimta og aðgangsstýring“;.

Ráðstefnan var afar vel sótt, en alls tóku þátt 190 manns frá um 100 stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Ráðstefnan og nýsköpunarverðlaunin eru samstarfsverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Nyskopunarverdlaun-2018Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra ásamt verðlauna- og viðurkenningarhöfum (Ljósm. stjórnarráðið).