Endurskoðun á Nýsköpunarmiðstöð í takt við nýsköpunarstefnu

„Eitt leiðarljósa nýsköpunarstefnu fyrir Ísland er að nýta eigi fjármagn til rannsókna og frumkvöðla umfram umsýslu og yfirbyggingu.“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem kynnti í vikunni þær fyrirætlanir sínar að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og finna þeim verkefnum sem miðstöðin hefur sinnt nýjan farveg.

„Eitt leiðarljósa nýsköpunarstefnu fyrir Ísland er að nýta eigi fjármagn til rannsókna og frumkvöðla umfram umsýslu og yfirbyggingu." sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem kynnti í vikunni þær fyrirætlanir sínar að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og finna þeim verkefnum sem miðstöðin hefur sinnt nýjan farveg. Í framhaldinu hefur ráðherra sett af stað vinnu, til að forgangsraða verkefnum í þágu nýsköpunarumhverfis á Íslandi. Með breytingunum vill nýsköpunarráðherra stuðla að öflugum opinberum stuðningi þar sem hans er þörf í núverandi umhverfi.

„Í haust kynntum við til sögunnar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og aðgerðir í kjölfarið. Þetta er næsta skref. Framhaldið krefst samtals við fjölda hagsmunaaðila og við gefum okkur góðan tíma til að gæta þeirra mikilvægu verkefna sem við viljum forgangsraða og standa vörð um,“ segir Þórdís Kolbrún.

Forgangsröðun fjögurra meginsviða stofnunarinnar

Niðurstaða mikillar greiningarvinnu í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneyti er sú að hluta verkefna NMÍ má framkvæma undir öðru rekstrarformi. Nýsköpunarráðherra hefur mótað áætlun um fjögur meginsvið stofnunarinnar, greint helstu verkefni og næstu skref eru að finna þeim farveg eftir þörfum í nýju rekstrarformi.

  1. Starfshópi skipuðum fulltrúum ráðuneytisins, háskólasamfélagsins, atvinnulífsins og Byggingavettvangsins verður falið að taka sérstaklega til skoðunar vettvang fyrir byggingarannsóknir. Horft er til þess að fjármunum til byggingarannsókna verði t.a.m. beint í samkeppnissjóð og þannig stuðlað að öflugum rannsóknum á sviðinu.
  2. Komið verði á samstarfi ráðuneytisins, háskólasamfélagsins og atvinnulífs um rekstur nýsköpunargarða fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Þeir yrðu eins konar sjálfstætt framhald af hluta þeirrar starfsemi sem nú fer fram undir merkjum NMÍ, en rekstrarform yrði með öðrum hætti. Stefnt er að því að starfsemi nýsköpunargarða verði staðsett í Vatnsmýrinni.
  3. Stefnt verði að því að mælingar, prófanir og efnagreiningar, þ. á m. prófanir vegna mannvirkja og vegagerðar sem og mengunarmælingar vegna stóriðju verði framkvæmdar á faggildum prófunarstofum í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur.
  4. Stuðningur hins opinbera við nýsköpunarumhverfið á landsbyggðinni verður efldur, t.a.m. með eflingu stafrænna smiðja (Fablabs). Mikilvægt er að samþætta aðgerðir enn betur við sóknaráætlanir landshluta með samvinnu við landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélög, Byggðastofnun og atvinnulífið.

Sigríður Ingvarsdóttir, forstjóri NMÍ, mun leiða vinnuna innan NMÍ og njóta stuðnings stýrihóps ráðuneytisins. Starfshópar verða skipaðir á næstu dögum til að styðja við verkefnið með aðkomu hagaðila. Starfsfólk NMÍ hefur verið upplýst um stöðuna.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands var sett á fót árið 2007 með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfsmenn NMÍ eru 81 og starfa í 73 stöðugildum, þar af fimm á landsbyggðinni. Áform eru um að stofnunin verði lögð niður um áramót og verður þá staðið við allar skuldbindingar gagnvart starfsfólki.