Nýjar vinnureglur um starfsemi Fasteignasjóðs jöfnunarsjóðs

Nýjar vinnureglur um úthlutanir á vegum Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga tóku gildi 1. júlí sl. á grundvelli reglugerðar um starfsemi fasteignasjóðsins (nr. 280/2021).

Vinnureglurnar varða sérstaklega úthlutun á 363 m.kr. sem ætlaðar eru til tilgreindra verkefna á árunum 2021 og 2022:

  1. Úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða þar sem um er að ræða byggingar í eigu annarra aðila en sveitarfélaga þar sem um samvinnuverkefni sveitar­félaga og einkaaðila er að ræða.
  2. Úrbætur þannig að biðstöðvar almenningssamgangna séu aðgengilegar öllu fötluðu fólki, svo og útivistarsvæði og almenningsgarðar.
  3. Úrbætur sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks, sem starfræktir eru skv. 2. mgr. 24. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

Mörg sveitarfélög/þjónustusvæði hafa sýnt þessum verkefnum töluverðan áhuga. Af þeirri ástæðu eru tiltekin hlutdeild af úthlutunarfjármagninu eyrnamerkt þjónustusvæðum eins og fram kemur í viðauka með vinnureglunum. Sveitarfélög innan þjónustusvæða eru eindregið hvött til þess að hafa samráð sín á milli um þau verkefni af ofangreindu tagi sem ákveðið er að ráðast í.

Styrkir til endurbóta á eldra íbúðarhúsnæði fatlaðs fólks

Að auki er athygli vakin á breytingu sem gerð var í mars sl. þegar reglugerðin um Fasteignasjóð var endurskoðuð. Breytingin varðar styrki til endurbóta á heimilum fatlaðs fólks, þar sem eldra ákvæði í 2. gr. reglugerðarinnar hljóðaði svo:

  • Til stuðnings við nauðsynlegar endurbætur á eldra íbúðarhúsnæði fatlaðs fólks með veru­legar þjónustu og stuðningsþarfir sem gera því kleift að búa áfram á heimilum sínum.

Við endurskoðun reglugerðarinnar var þetta ákvæði þrengt og hljóðar nú svo:

  • Til stuðnings við nauðsynlegar endurbætur eða endurskipulagningar á eldra íbúðarhúsnæði fatlaðs fólks í eigu sveitarfélaga eða húsnæðis á vegum sjálfstæðra rekstraraðila sem hafa gert samning við sveitarfélag á grundvelli 6. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með lang­varandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Ofangreint ákvæði hefur m.a. komið til umræðu í starfshópi sem nú vinnur að tillögum um starfsumhverfi ráðins aðstoðarfólks í NPA. Vinnueftirlitið hefur m.a. bent á að það geti verið forsenda NPA-samnings að fullnægjandi vinnuaðstæður séu fyrir hendi inni á heimili notanda. Eðli málsins samkvæmt reynir mest á slík atriði í samningum um sólarhringsþjónustu, þar sem aðstoðarfólk gengur vaktir á heimili notanda.

Að mati sambandsins er hér um álitaefni að ræða sem ræða þarf m.a. við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, með tilliti til svonefndra sérþarfalána sem HMS veitir einstaklingum. Stefnt er að fundum um málið eftir sumarleyfi.

Í vinnureglunum er m.a. kveðið á um að framlög verði veitt innan þjónustusvæða í málefnum fatlaðra enn ekki einstaka sveitarfélögum. Stefnt er að því að sem flest þjónustusvæði njóti framlaga á grundvelli útreikninga sem koma fram í vinnureglunum.