Nýir samningar um rekstur hjúkrunarheimila

Föstudaginn 8. apríl voru kynntir nýir samningar við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Samningarnir eru til þriggja ára og nemur heildarfjármagn til þeirra tæpum 130 milljörðum króna. Á samningstímanum verður unnið að verkefnum sem miða að bættu rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar og auknum gæðum þjónustu þeirra.

„Þetta eru mikilvæg tímamót. Nú eru gildir samningar til lengri tíma við rekstraraðila allra þeirra 45 hjúkrunarheimila sem starfa víðsvegar um landið samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta eru samningar gerðir í góðri sátt. Tímann framundan munum við nýta vel til skilgreindra verkefna sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimilanna og efla gæðastarf, m.a. með endurskoðun núverandi greiðslukerfis“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Sambandið fagnar nýjum samningum um þjónustu hjúkrunarheimila þar sem rekstrargrundvöllur þeirra er styrktur. Samningstími til þriggja ára gefur svigrúm til að endurskoða t.a.m. mats- og greiðslukerfi  vegna hjúkrunarheimila þannig að greiðslur séu í samræmi við raunverulega þjónustu hverju sinni. Einnig er mjög mikilvægt að sem fyrst verði fyrirkomulag húsnæðismála skoðað í samræmi við samninginn.“

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins

Valgerður Freyja Ágústsdóttir og Bryndís Gunnlaugsdóttir Holm, sérfræðingar sambandsins báru hita og þunga af gerð samninganna fyrir hönd sambandsins.