Stefnt er að nýframkvæmdum við hafnarmannvirki hérlendis upp á ríflega 67 ma.kr. fram til ársins 2031.
Langstærsti hluti þessara áætluðu framkvæmda er vegna nýrra viðlegukanta eða um 27 ma.kr., um 15 ma.kr. eru áætlaðir í fjárfestingar á viðbótar raftengibúnaði vegna orkuskipta og um 10 ma.kr. í landfyllingar fyrir ný hafnarsvæði.
Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu um framkvæmda- og viðhaldsþörf hjá íslenskum höfnum á komandi árum, sem Sesselía Dan Róbertsdóttir hagfræðingur vann fyrir Hafnasamband Íslands. Þar kemur einnig fram að viðhaldsþörf hafna innan hafnasambandsins er áætluð liðlega 12 ma.kr. fram til ársins 2025. Þar er endurnýjun og endurbætur á stálþilum stærsti viðhaldsþátturinn eða upp á nær 5 ma.kr.