Ný GERT verkfærakista fyrir tækni og raunvísindi í grunnskólum

GERT hefur opnað verkfærakistu fyrir verkefnalýsingar, verkferla og önnur hagnýt gögn vegna tækni- og raunvísindanáms á grunnskólastigi. Auk þess að safna slíkum gögnum á einn stað, er verkfærakistunni einnig ætlað að greiða fyrir miðlun skóla á þekkingu og reynslu sín á milli.

GERT hefur opnað verkfærakistu fyrir verkefnalýsingar, verkferla og önnur hagnýt gögn vegna tækni- og raunvísindanáms á grunnskólastigi. Auk þess að safna slíkum gögnum saman á einn stað, er verkfærakistunni einnig ætlað að greiða fyrir miðlun grunnskóla á þekkingu og reynslu sín á milli.

Verkfærakistan er staðsett á vefhluta GERT á Skólar og tækni, en eins og heiti vefjarins gefur til kynna þá styður hann almenna kynningu á öllu því efni og viðburðum sem tengjast skólum og tækni.  

Af öðru GERT-efni má nefna Menntabúðir NaNO, Fab Lab-smiðjur og Team Spark, en þátttökuskólum býðst m.a. að fá kynningar frá þessu teymi verkfræðinema við HÍ, sem vinnur nú að smíði rafknúins kappakstursbíls. Þá eru á vefnum ítarlegar upplýsingar um sjálft GERT-verkefnið, GERT-skóla og GERT-fyrirtæki.

GERT-verkefninu var komið á fót árið 2012 í samstarfi Samtaka iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skammstöfun verkefnisins stendur fyrir Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni og er markmið þess að stuðla að auknum áhuga grunnskólanemenda á þessum sviðum. Talið er að þörf atvinnulífsins fyrir raunvísinda- og tæknimenntað starfsfólk muni margfaldast á næstu árum og áratugum.