Næstum öll sveitarfélög landsins hafa samþykkt að vinna saman að stafrænni umbreytingu. Stafrænt teymi, með þremur starfsmönnum, tók til starfa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga nú í júní.
Teymið mun vinna að framkvæmd stafrænna samstarfsverkefna sveitarfélaga í samvinnu við stafrænt ráð sveitarfélaga og faghóp.
Upplýsingasíða um stafrænt samstarf sveitarfélaga hefur verið opnuð og mun verða þróuð áfram á næstu mánuðum. Fyrsta stafræna samstarfsverkefni sveitarfélaga er þegar hafið. Það snýst um afgreiðsluferla fyrir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og er hluti af COVID-19 fjárfestingu ríkisins.
Til að undirbúa ákvörðunartöku um næstu samstarfsverkefni hefur „Betra Ísland“ kerfið verið nýtt til að setja fram hugmyndir um samstarfsverkefni sem framkvæmdastjórar sveitarfélaga hafa verið beðnir um að velja á milli fyrir hönd sinna sveitarfélaga. Verkefnahugmyndirnar eru 56 talsins í fimm flokkum. Þær byggja á greiningu á stafrænni stöðu sveitarfélaga frá því í fyrra, tillögum faghóps sveitarfélaga og eru afrakstur Nýsköpunarmóts 2021 um samstarf opinberra aðila og einkaaðila. Sveitarfélögin geta líka komið með nýjar hugmyndir. Þær verkefnahugmyndir, sem fá mest fylgi, munu verða settar í nákvæmt ávinnings- og kostnaðarmat og endanleg ákvörðun um samstarfsverkefni verður tekin út frá þeim niðurstöðum.