Ný sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi

Laugardaginn 19. september sl. gengu íbúar í sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi til kosninga til sveitarstjórnar. Kosningarnar áttu að fara fram 19. apríl en var frestað vegna Covid-19 veirufaraldursins.

Þá stóð einnig til að sameining sveitarfélaganna myndi taka gildi þann 3. maí þegar ný sveitarstjórn myndi koma saman.

Með sameiningu sveitarfélaganna fjögurra Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar fækkar sveitarfélögum á Íslandi um 3, eru nú 69 í stað 72 áður.

Í maí var verk- og tímaáætlun verkefnis-ins endurskoðuð og var þá gengið út frá því að kosningar myndu fara fram 19. september og að ný sveitarstjórn myndi taka við 4. október.

Alls voru 5 listar í framboði; B-listi Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks, L-listi Austurlistans, M-listi Miðflokksins og V-listi Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.

Múlaþing, Drekabyggð eða Austurþing

Meðal fyrstu verka nýrrar sveitarstjórnar verður að ákveða nafn hins sameinaða sveitarfélags en í nafnakönnun sem framkvæmd var 29. júní hlutu nöfnin Múlaþing, Drekabyggð og Austurþing flest atkvæði.

Úrslit kosninganna má sjá á vefsíðum eldri sveitarfélaganna fjögurra hér á vefnum okkar.

Heimastjórnir

Auk sveitarstjórnarinnar sjálfrar voru valdir fulltrúar í svokallaðar heimastjórnir. Eftirtaldir voru kjörnir í heimastjórn (atkv. í sviga):

  • Borgarfjörður eystri: Alda M. Kristinsdóttir (30) og Ólafur Hallgrímsson (27).
  • Seyðisfjörður: Ólafur Sigurðsson (171) og Rúnar G. Gunnarsson (76).
  • Fljótsdalshérað: Dagmar Ýr Stefánsdóttir (463) og Jóhann Gísli Jóhannsson (163).
  • Djúpavogshreppur: Kristján Ingimarsson (47) og Ingi Ragnarsson með (41).