Ný skýrsla um Airbnb og húsnæðismarkaðinn

Tekjur af Airbnb-útleigu á Íslandi hafa vaxið hægar á fyrstu mánuðum ársins en á sama tímabili síðustu ár. Fjöldi gistieininga vex mun hægar en áður og hefur bókunarhlutfall verið lægra í upphafi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Á hinn bóginn hefur Airbnb-íbúðum á landsbyggðinni fjölgað talsvert hraðar en á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Sveitarfélög verða af umtalsverðum tekjum.

Tekjur af Airbnb-útleigu á Íslandi hafa vaxið hægar á fyrstu mánuðum ársins en á sama tímabili síðustu ár. Fjöldi gistieininga vex mun hægar en áður og hefur bókunarhlutfall verið lægra í upphafi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Á hinn bóginn hefur Airbnb-íbúðum á landsbyggðinni fjölgað talsvert hraðar en á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um skammtímaleigu íbúða til ferðamanna og áhrif Airbnb á íslenska húsnæðismarkaðinn, sem Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, hefur tekið saman.

Um 6.000 gistieiningar eru nú til leigu á Airbnb á Íslandi og hefur fjöldi þeirra rúmlega tvöfaldast á tveimur árum. Áætlað er í skýrslunni að um 1.500-2.000 íbúðir og herbergi á landsvísu séu í stöðugri útleigu á Airbnb og er Reykjavík líklega sú höfuðborg í Vestur-Evrópu, sem er með næstflestar Airbnb-skráningar miðað við höfðatölu, á eftir Lissabon í Portúgal.

Þá benda niðurstöður hagdeildar Íbúðalánasjóðs til þess að fjölgun Airbnb-gistieininga geti skýrt allt að 5-9% hækkun íbúðaverðs hér á landi á tímabilinu 2015-2017. Tekið er þó fram að frekari rannsókna sé þó þörf á orsakasambandinu milli Airbnb-útleigu og húsnæðismarkaðar.

Einnig kemur fram að í mars sl. voru 30% Airbnb-íbúða og -herbergja á Íslandi staðsett í miðborg og vesturbæ Reykjavíkur. Á landsbyggðinni hefur Airbnb-íbúðum hins vegar fjölgað talsvert hraðar en á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Á tveggja ára tímabili, frá mars 2016 til 2018, fjölgaði íbúðum og herbergjum til leigu í miðborg og vesturbæ Reykjavíkur um 200 en utan höfuðborgarsvæðisins nam fjölgunin 1.400.

Útgefnum leyfum fyrir skammtímaleigu hefur þó ekki fjölgað í takt við skráðar leigueiningarnar á Airbnb og í nóvember 2017 voru um 60% íbúða í umfangsmikilli útleigu á Airbnb ekki skráð sem atvinnuhúsnæði, þrátt fyrir reglur þar um. Svo virðist því sem sveitarfélög verði árlega af hundruðum milljóna króna, jafnvel yfir milljarði, í formi fasteignagjalda vegna Airbnb-íbúða.

Nálgast má skýrslu Íbúðalánasjóðs í heild sinni á hlekk hér fyrir neðan.Airbnb-3