Birt hefur verið í B-deild stjórnartíðinda reglugerð nr. 1330/2023 um opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum.
Í reglugerðinni felst að opinberum aðilum sem falla undir lög um opinber innkaup beri að haga innkaupum í samræmi við reglugerðina og ákveðinn hluti innkaupa skuli vera á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum.
Undir reglugerðina falla innkaup á fólksbifreiðum, hópbifreiðum, sendibifreiðum, vörubifreiðum sem og fleiri flokkum ökutækja, sem eru nánar skilgreind í reglugerðinni. Þar kemur fram að hlutdeild vistvænna léttra ökutækja skuli vera 38,5% af þeim innkaupum sem falla undir reglugerðina. Hlutfall vistvænna þungra ökutækja eru síðan frá 10% og upp í 65% eftir því hvaða tegund ökutækis er um að ræða. Jafnframt verða gerðar stífari kröfur eftir árið 2025 vegna þungra ökutækja.
Reglugerðin á ekki við um öll innkaup sveitarfélaga á ökutækjum. Í fyrsta lagi þá á hún eingöngu við þau innkaup sem eru útboðsskyld á Evrópska efnahagssvæðinu, samkvæmt viðmiðunarfjárhæðum í 23. gr. laga um opinber innkaup (er í dag kr. 32.314.000). Í öðru lagi þá eru ákveðnar tegundir bifreiða undanþegnar, svo sem kaup á slökkvibílum og ökutækjum með hjólastólaaðgengi. Í þriðja lagi er hlutfall vistvænna ökutækja reiknað fyrir landið allt, en ekki niður á einstök sveitarfélög eða stofnanir.
Nánari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi kynningu frá ráðuneytinu og fyrirliggjandi reglugerð.
Ef spurningar vakna má hafa samband við sérfræðinga á stjórnsýslusviði sambandsins, samband@samband.is.