Sjálfbær landnýting er leiðarstef nýrra landgræðslulaga

Alþingi samþykkti á síðasta starfsdegi fyrir jólaleyfi ný lög um landgræðslu. Um heildarendurskoðun er að ræða á eldri lögum frá 1965, sem tekur tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á löggjöf og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála. Einnig er skerpt betur á markmiðum laganna, s.s. varðandi vernd og sjálfbæra nýtingu jarðvegs og gróðurs og endurheimt vistkerfa. Þá er nafni Landgræðslu ríkisins breytt í Landgræðslan. Fallist var á breytingartillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem laut að áhrifum laganna á skipulagsmál sveitarfélaga.

Alþingi samþykkti á síðasta starfsdegi fyrir jólaleyfi ný lög um landgræðslu. Um heildarendurskoðun er að ræða á eldri lögum frá 1965, sem tekur tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á löggjöf og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála. Einnig er skerpt betur á markmiðum laganna, s.s. varðandi vernd og sjálfbæra nýtingu jarðvegs og gróðurs og endurheimt vistkerfa. Þá er nafni Landgræðslu ríkisins breytt í Landgræðslan.

Fallist var á breytingartillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem laut að áhrifum laganna á skipulagsmál sveitarfélaga.

Sambandið tekur, í umsögn sinni um málið, undir þau sjónarmið að tímabært sé að endurskoða lög um landgræðslu, en telur frekari breytingar nauðsynlegar. Beindi sambandið einkum spjótum sínum að 13. gr. frumvarpsins, sem hefði að óbreyttu aukið enn frekar á flækjustig í skipulagsmálum.  Slík flækjustig séu þegar ærin vegna flókins samspils á milli laga er varða skipulagsmál, þar á meðal laga um náttúruvernd, nr. 60/2013 , skipulagslaga, nr. 123/2010, og laga um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis féllst á þessi rök vegna 13. greinarinnar sem samþykkt var svohljóðandi: 

Við hvers kyns leyfisskyldar framkvæmdir sem geta haft áhrif á gróður og jarðveg skal sýna sérstaka aðgát til að lágmarka rask og leitast við að endurheimta vistkerfi sem verða fyrir raski.

Á meðal þeirra lagabreytinga sem nýja löggjöfin tekur mið af eru ný lög um náttúruvernd, skipulagsmál og um mat á umhverfisáhrifum. Af alþjóðlegum skuldbindingum má svo nefna loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna ásamt samningi um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og samningi um varnir gegn eyðimerkurmyndun.

Eitt helsta leiðarstef nýju löggjafarinnar er sjálfbær landnýting. Er kveðið á um reglubundið mat á ástandi lands og árangri landgræðslustarfsins, setningu viðmiða um sjálfbæra landnýtingu og áætlanagerð um úrbætur þar sem landnýting er ekki sjálfbær. 

Lögin kveða enn fremur á um gerð landgræðsluáætlunar fyrir landið í heild ásamt svæðisbundnum áætlunum sem vinna ber í samráði við sveitarfélög og aðra hagaðila. Er svæðisáætlunum ætlað að draga fram sérstöðu og áherslur í landgræðslu eftir landshlutum. 

Nefna má svo nýja skilgreiningu á ítölu sem tekur nú mið af leiðbeiningum og viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu. Þá hafa lögin enn fremur að markmiði að auka þátttöku almennings og hagaðila í landgræðslustarfi og getur Landgræðslan í því skyni stutt við verkefni á vegum einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga, fyrirtækja eða annarra.