10. des. 2010

Ný reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

  • Skjaldarmerki

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Reglugerðin, sem nær til allra lögákveðinna verkefna sjóðsins, er sett á grundvelli 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga og öðlast gildi 1. janúar 2011. Þá fellur úr gildi reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 113/2003, með síðari breytingum.

Í nýrri reglugerð koma fram þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglugerð, nr. 113/2003 frá gildistöku hennar og eru enn í gildi. Í reglugerðinni koma einnig fram breytingar á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlögum sjóðsins sem gerðar hafa verið í tengslum við samþykktar tillögur starfshóps um heildarendurskoðun á gildandi laga- og reglugerðarákvæðum um sjóðinn og falla undir valkost 1, sbr. frétt á vef ráðuneytisins 9. nóvember sl.  

Þá nær reglugerðin til þeirra breytinga sem gerðar eru á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 með síðari breytingum, vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Ráðherra mun setja sérstaka reglugerð um úthlutanir framlaga vegna yfirfærslunnar.