07. des. 2010

Íslenskir nemendur bæta lesskilning sinn í PISA 2009

  • Nam

PISA (Programme for International Student Assessment) er umfangsmikil alþjóðleg rannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði, stærðfræði og þrautalausnum. Niðurstöður PISA rannsóknarinnar fyrir árið 2009 liggja nú fyrir. Loks virðist hafa tekist að snúa við þeirri óheillaþróun í lesskilningi meðal íslenskra nemenda sem PISA hefur mælt undafarinn áratug og þeir bætt stöðu sína umtalsvert frá síðustu mælingu sem fram fór árið 2006.

Niðurstöðurnar nú gefa von um að Ísland sé á réttri leið hvað þennan námsþátt varðar. Frammistaðan í stærðfræði og í náttúrufræði hefur hins vegar ekki breyst marktækt frá fyrri rannsóknum og er augljóslega þörf á endurskoðun kennsluhátta í þeim greinum, sérstaklega í náttúrufræði þar sem frammistaða Íslands er talsvert undir meðaltali OECD landanna. Íslenska skýrslu um niðurstöður PISA 2009 má nálgast á vef Námsmatsstofnunar ásamt skýrslum OECD um PISA 2009.

 Námsmatsstofnun hefur sett upp meðfylgjandi áætlun varðandi kynningar á niðurstöðum PISA 2009 til skóla og sveitarfélaga:

Janúar 2011 - Mynd af skólum

Þeir grunnskólar sem tóku þátt í PISA með 15 eða fleiri nemendur fá upplýsingar um stöðu skólans í lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði. Þar eru meðaltöl og dreifing innan skólans.

Janúar til maí 2011 - Fræðsluskrifstofur

Fræðsluskrifstofur eiga kost á að fá kynningar um skóla á svæðinu. Greint er frá niðurstöðum um færnisvið lesskilnings, flokka lesskilningsverkefna, hæfnisþrep, þróun yfir tíma og kynjamun. Samanburður við niðurstöður sömu nemenda á samræmdum prófum 10. bekkjar í íslensku og stærðfræði. Hægt er að óska eftir frekari greiningu á niðurstöðum PISA.

Janúar til maí 2011 - Umræðufundir

Mánaðarlegir umræðufundir um niðurstöður PISA 2009. Kynnt nánari úrvinnsla á niðurstöðum fyrir Ísland í alþjóðlegu samhengi. Afmörkuð málefni tekin fyrir líkt og á fyrri umræðufundum um PISA 2006.