02. des. 2010

Lagabreytingar vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra

  • SIS_Felagsthjonusta_760x640

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvörp til lagabreytinga sem gera þarf vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Þar kveður mest að breytingum á lögum um málefni fatlaðra, sem félags- og tryggingamálanefnd Alþingis fjallar um þessa dagana.

Sambandið hefur skilað nefndinni umsögn sinni um frumvarpið og er hún aðgengileg á vef þess. Í umsögninni eru ekki gerðar tillögur um efnislegar breytingar á frumvarpinu, en ýmsum ábendingum komið á framfæri, m.a. til að auðvelda skjóta afgreiðslu málsins. Bent er á að frumvarpið er flutt til þess að heildarsamkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 23. nóvember sl. komist til framkvæmda. Unnið hafi verið sleitulaust að málinu allt þetta ár á vettvangi verkefnisstjórnar og fagnefnda sem hana heyra. Málið komi því vel undirbúið inn á borð þingmanna.

Í umsögninni er lögð áhersla á að það hafi verið lykilatriði í því að heildarsamkomulagið náðist að mælt yrði fyrir um endurmat yfirfærslunnar. Gengið er út frá því að forsendur samkomulagsins verði vaktaðar með reglulegum hætti fram til 2014. Þessar forsendur byggja þannig á þremur skilgreindum römmum: lagaramma, fjárhagsramma og faglegum ramma. Samkvæmt ákvæðum samkomulagsins getur það falið í sér verulega röskun á forsendum þess ef farið er út fyrir þessa ramma. Sem dæmi má taka að breytt löggjöf í málaflokknum getur þýtt verulega röskun ef þar eru settar inn nýjar lögbundnar skyldur á sveitarfélögin, t.d. um aðgengismál. Veruleg  röskun á fjárhagsramma myndi t.d. liggja fyrir ef kostnaður vegna biðlista fer umfram þær 200 mkr. sem ætlaðar eru til þess á árinu 2012. Veruleg röskun á faglegum ramma gæti komið fram verði fyrirkomulagi mats og greininga breytt á tímabilinu. 

Í umsögninni er áréttað að sambandið muni, fyrir hönd sveitarfélaganna, fylgjast með framvindunni og greina hvort þróun málaflokksins stefni út fyrir þessa ramma. 

Þá er vikið að Samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og því sérstaka verkefni um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði með frumvarpinu.

Aðrar lagabreytingar sem gera þarf snúa að málefnum starfsmanna og hefur fjármálaráðherra mælt fyrir frumvarpi þess efnis. Í öðru frumvarpi koma fram breytingar á skatta- og tekjustofnalögum vegna yfirfærslunnar. Mælt verður fyrir því þingmáli mjög fljótlega.  

Umsagnir sambandsins um þessi tvö síðarnefndu frumvörp verða birtar um leið og frá þeim hefur verið gengið.