01. des. 2010

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar lögð fram

  • reykjavik

Áhersla verður lögð á að verja velferðarþjónustu sérstaklega í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011. Jón Gnarr, borgarstjóri, lagði áætlunina fram til fyrri umræðu á fundi borgarstjórnar 30. nóvember sl.

Í fjárhagsáætluninni er farin blönduð leið, hagræðing í rekstri, hækkun þjónustugjalda og útsvarshækkun. Áætlunin gerir ráð fyrir að útsvar hækki úr 13,03% í 13,20%, þjónustugjöld fyrir ákveðna þjónustuliði hækki hóflega til að koma til móts við raunlækkun eftir tveggja ára frystingu og hagræðingarkröfu á fagsvið borgarinnar og miðlæga stjórnsýslu.  

Fagsviðum borgarinnar er nú þriðja árið í röð falið að leita allra leiða til hagræðingar í rekstri. Mest er hagræðingin hjá skipulags- og byggingarsviði og framkvæmda- og eignasviði en minnst í velferðarþjónustunni.

Á heimsíðu Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is geta borgarbúar kynnt sér fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 með myndrænni framsetningu. Á vefsíðunni er hægt að skoða yfirlit yfir málaflokkana og þróun þeirra í heild sinni frá 2008. Jafnframt er hægt að skoða áætlun fyrir hvert svið og stærstu verkefni.

Þá geta borgarbúar sent Reykjavíkurborg ábendingar um fjárhagsáætlunina í gegnum ábendingagátt á síðunni. Tekið verður mið af ábendingum við fjárhagsáætlunarvinnuna. Með þessum hætti er íbúum boðin aðkoma að fjárhagsáætlunarferlinu á annan hátt en áður hefur verið.